is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskólinn á Akureyri > Heilbrigðisvísindasvið > B.S. verkefni >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/276

Titill: 
  • Streita, bjargráð og iðja unglinga : í 10. bekk á Norðurlandi eystra og í Reykjavík
Námsstig: 
  • Bakkalár
Útdráttur: 
  • Í flóknum nútímasamfélögum er hraðinn mikill og margir valmöguleikar í boði sem geta stuðlað að streitu hjá unglingum. Á unglingsárunum eiga sér líka stað miklar líkamlegar, tilfinningalegar og félagslegar breytingar. Rannsóknir sýna að streita getur haft áhrif á vellíðan, félagslega aðlögun og heilsu unglinga. Auk þess bendir margt til þess að það skipti máli hvernig þeir takast á við streituvaldandi aðstæður. Streita, streituvaldar og bjargráð eru víxlverkandi þættir sem hafa áhrif á lífsgæði einstaklinga. Tilgangur þessarar rannsóknar var þríþættur. Í fyrsta lagi að kanna streitueinkenni, streituvalda og bjargráð unglinga í 10. bekk í Reykjavík og í litlum sveitarfélögum á Norðurlandi eystra. Skoðað var hvort munur væri á milli landshluta annars vegar og kynja hins vegar varðandi fyrrnefnd atriði. Í öðru lagi að skoða hvers konar iðju viðkomandi unglingar stunda. Í þriðja lagi að kanna hvort gátlisti Stein um streitustjórnun (Stress management questionnaire, SMQ), nýtist iðjuþjálfum í vinnu með unglingum hér á landi. Í rannsókninni var lagður fyrir Gátlisti um streitu og bjargráð. Megindleg rannsóknaraðferð var notuð og unnið úr gögnum með lýsandi og ályktunartölfræði. Þyrpingsúrtak var valið úr þýði allra nemenda í 10. bekk grunnskóla Reykjavíkur og í litlum sveitarfélögum á Norðurlandi eystra. Rannsóknin náði til 281 nemenda og af þeim tóku 196 þátt (69,7%). Kvíði og einbeitingarskortur reyndust algengustu streitueinkennin, vera óundirbúinn fyrir t.d. próf og spurningar í tíma voru algengustu streituvaldarnir og að hlusta á tónlist kom oftast fyrir sem bjargráð við streitu. Niðurstöður rannsóknarinnar sýndu að engin munur var á streitueinkennum, streituvöldum né bjargráðum unglinga í litlum sveitarfélögum á Norðurlandi eystra og í Reykjavík, en munur fannst á milli kynja á nokkrum þáttum. Frítíma sínum vörðu unglingar helst með vinum sínum, þeir stunduðu íþróttir, hlustuðu á tónlist, horfðu á sjónvarp eða voru í tölvu. Þátttakendur höfðu einna helst áhyggjur af skólatengdum þáttum, það er samræmdum prófum og framhaldsmenntun. Fyrrnefnd atriði styðja þá ályktun að unglingar í 10. bekk upplifa streitu í daglegu lífi og geta iðjuþjálfar veitt fræðslu um streitustjórnun. Aðlaga þarf gátlistann enn frekar fyrir unglinga ásamt því að gera fleiri rannsóknir á þessu sviði. Gátlisti Stein um streitustjórnun er yfirgripsmikið mælitæki sem nýtist vel til sjálfskoðunar er eykur sjálfsþekkingu og ýtir undir heilbrigðan lífsstíl. Einnig gefur listinn iðjuþjálfum möguleika á að gera íhlutunaráætlun tengda heilsueflingu og forvörnum í skólum.
    Lykilhugtök: Unglingar, streita, streituvaldar, bjargráð, iðja.

Athugasemdir: 
  • Verkefnið er opið nemendum og starfsfólki Háskólans á Akureyri
Samþykkt: 
  • 1.1.2002
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/276


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Streita-efnisyfirlit.pdf64.66 kBOpinnStreita, bjargráð og iðja unglinga - efnisyfirlitPDFSkoða/Opna
Streita-forsida.pdf106.63 kBOpinnStreita, bjargráð og iðja unglinga - forsíðaPDFSkoða/Opna
Streita-heimildaskra.pdf106.74 kBOpinnStreita, bjargráð og iðja unglingam - heimildaskráPDFSkoða/Opna
Streita-utdrattur.pdf99.4 kBOpinnStreita, bjargráð og iðja unglinga - útdrátturPDFSkoða/Opna
Streita-heild.pdf549.01 kBTakmarkaðurStreita, bjargráð og iðja unglinga - heildPDF