Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/27600
Inngangur: Fósturköfnun (e. perinatal asphyxia) er afleiðing þess að skerðing verður á flutningi súrefnis frá móður til fósturs um fylgju. Eftir fósturköfnun eru nýburar í hættu á að fá ýmis vandamál, bæði til lengri og skemmri tíma, en alvarleiki þeirra fer eftir umfangi skaðans og ástandi þeirra líffæra sem eiga í hlut. Alvarlegastur er skaðinn sem getur orðið á heila, en hann getur leitt til heilakvilla af völdum súrefnisþurrðar (e. hypoxic ischemic encephalopathy, HIE) og heilalömunar (e. cerebral palsy). Markmið rannsóknarinnar var að kanna nýgengi, áhættuþætti, orsakir og afleiðingar fósturköfnunar og einnig að skoða hvernig staðið var að endurlífgun nýbura sem urðu fyrir fósturköfnun og hver afdrif þeirra voru í kjölfar hennar.
Efniviður og aðferðir: Rannsóknin var afturskyggn og náði yfir 15 ára tímabil, frá 2002 – 2016. Við athugun á nýgengi fósturköfnunar voru fengnar upplýsingar um öll börn sem urðu fyrir fósturköfnun hér á landi á tímabilinu, skilgreind sem 5 mínútna Apgar 6. Auk þess voru fundin í Vökuskrá Barnaspítala Hringsins þau 50 börn sem fengu lægstan Apgar við 5 mínútna aldur og upplýsingum safnað um meðferð og afdrif þeirra úr Vökuskrá og sjúkraskrám og um meðgöngu og fæðingu úr mæðraskrám og sjúkraskrám mæðranna.
Niðurstöður: Alls fengu 634 börn greininguna fósturköfnun á rannsóknartímabilinu. Nýgengi fósturköfnunar reyndist vera 9,71/1000 fædd börn. Rannsóknartímabilinu var skipt niður í tvö tímabil, 2002 – 2009 og 2010 – 2016. Nýgengi fósturköfnunar á fyrra tímabilinu var 10,64/1000 fædd börn, en á því seinna reyndist það 8,64/1000 fædd börn. Algengustu áhættuþættir innan rannsóknarhópsins voru notkun oxytósíns dreypis í fæðingu (62,0%), líkamsþyngdarstuðull (LÞS) móður 30 kg/m2 (43,0%) og framköllun fæðingar (42,0%). Algengast var að fósturhjartsláttarrit var metið óeðlilegt, í 52% tilvika af heilbrigðisstarfsfólki viðstatt fæðinguna og í 69,6% tilvika af rannsóknaraðilum. Algengar orsakir fósturköfnunar innan rannsóknarhópsins voru axlaklemma (26,0%) og fylgjuþurrð (20,0%), en algengast var að orsök fósturköfnunar hefði verið flokkuð sem “annað” (42,0%). Allir nýburar í rannsóknarhópnum þurftu á endurlífgun að halda eftir fæðingu. Öndunaraðstoð var veitt í öllum tilvikum, hjartahnoð í 48,0% tilvika, adrenalín gefið í 26,0% tilvika og blóð gefið í 4,0% tilvika. Af 50 börnum sem urðu fyrir alvarlegri fósturköfnun voru 27 (54,0%) sem fengu HIE. Af þeim sem fengu HIE létust sex (22,2%) og útskrifuðust 21 (77,8%) á lífi, en fimm (23,8%) þeirra greindust seinna með heilalömun.
Ályktanir: Rannsóknin leiddi í ljós að nýgengi fósturköfnunar fer lækkandi. Áhættuþættir eru margvíslegir en algengastir voru; notkun oxytósíns dreypis, LÞS móður 30 kg/m2 og framköllun fæðingar. Fósturköfnun getur orðið óvænt, en axlaklemma og fylgjuþurrð voru algengar orsakir hennar í rannsókninni. Endurlífgun var ávallt hafin strax af viðstöddum og allt bendir til þess að rétt hafi verið staðið að henni í öllum tilvikum, sem undirstrikar mikilvægi þjálfunar ljósmæðra og lækna í endurlífgun nýbura. Rúmlega helmingur barnanna bar merki um HIE eftir fæðingu. Þrátt fyrir að börnin yrðu öll fyrir alvarlegri fósturköfnun greindist aðeins tiltölulega lítill hluti þeirra með heilalömun síðar á ævinni.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Elva Rut Siguðard._Fósturköfnun á Íslandi.pdf | 2.43 MB | Lokaður til...01.01.2027 | Heildartexti | ||
Yfirlýsing.pdf | 551.44 kB | Lokaður | Yfirlýsing |