is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > B.S. verkefni - Heilbrigðisvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/27601

Titill: 
 • Alvarleiki offitu barna í Heilsuskóla Barnaspítalans og afdrif þeirra
Námsstig: 
 • Bakkalár
Útdráttur: 
 • Inngangur: Offita er alvarlegur sjúkdómur, sérstaklega hjá börnum og unglingum þar sem afleiðingarnar geta orðið langvarandi. Árið 2011 var sett saman teymi á Barnaspítala Hringsins undir nafninu Heilsuskólinn sem hefur það hlutverk að aðstoða börn og unglinga með offitu, og fjölskyldur þeirra við að bæta lífstíl sinn. Til þess að unnt sé að ná árangri í meðferð á offitu þarf greining og meðferð að vera eftir stöðluðum viðmiðum líkt og gert er við greiningu og meðferð annarra sjúkdóma. Í þessu skyni var Edmonton-skalinn þróaður til þess að meta alvarleika offitu með tilliti til þátta tengdum efnaskiptum, stoðkerfi, geðheilbrigði og félagsstöðu barnsins eða unglingsins. Helsta markmið rannsóknarinnar var að sannreyna Edmonton-skalann sem greiningartæki og mælikvarða á alvarleika offitu barna og unglinga.
  Efniviður og aðferðir: Rannsóknin var afturskyggn og náði til 428 barna og unglinga, sem vísað hafði verið til Heilsuskóla Barnaspítalans á tímabilinu 1. ágúst 2011 til 23. september 2016. Notast var við upplýsingar um þátttakendur, sem skráðar höfðu verið í gagnagrunn Heilsuskólans. Viðbótarupplýsingar fengust úr Sögukerfi Landspítalans. Alvarleiki þátta sem sneru að efnaskiptum, stoðkerfi, geðheilbrigði og félagsstöðu þátttakanda var metinn samkvæmt Edmonton-skalanum og Edmonton-stig þátttakandans þannig ákvarðað. Því hærra stig, sem þátttakandinn fékk, þeim mun alvarlegri er offitan samkvæmt skalanum.
  Niðurstöður: Af 428 einstaklingum vantaði upplýsingar um þrjá og 29 þeirra féllu utan rannsóknartímabilsins. Þátttakendur í rannsókninni voru því 396 talsins. Ekki var hægt að styðjast við upplýsingar úr blóðrannsókn hluta þátttakanda (39%). Flestir þátttakendur voru án stoðkerfisvandamála (71%). Stór hluti þátttakenda (66%) glímdi við einhver andleg eða geðræn vandamál og þar af nokkur hluti (8%) við alvarleg vandamál. Vandamál tengd félagsstöðu voru til staðar hjá stórum hluta þátttakenda (73%) en þar af voru vandmálin minni háttar í helming tilfella (53%). Samkvæmt Edmonton-skalanum var tæplega helmingur þátttakenda með alvarlega eða mjög alvarlega offitu. Fylgni milli alvarleika offitu á Edmonton-skala og árangurs meðferðar var til staðar en var ekki marktæk. Ekki var marktæk fylgni á mati á alvarleika offitu samkvæmt Edmonton-skalanum og alvarleika offitu samkvæmt líkamsþyngdarstuðli. Marktæk fylgni reyndist vera milli geðheilbrigðis og lengd meðferðar sem og á milli góðs árangurs þátttakanda og geðheilbrigðis.
  Ályktanir: Rannsóknin leiddi í ljós að Edmonton-skalinn hefur ákveðið forspárgildi hvað varðar meðferðarheldni og árangur sjúklinga sem glíma við offitu. Eftirtektarvert er hversu stór hluti sjúklinga glímir við vandamál tengd andlegri heilsu og má álykta sem svo að frekari meðferðaúrræða sé þörf fyrir þann hóp. Þar sem ekki virðist vera fylgni milli alvarleika offitu samkvæmt Edmonton-skala og líkamsþyngdarstuðulsins væri kjörið að nota þessi greiningarverkfæri saman til þess að tryggja viðeigandi meðferð fyrir börn og unglinga sem glíma við offitu.

Samþykkt: 
 • 15.5.2017
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/27601


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
BertaOlafsdottir-offitabarnaPDF (1).pdf1.67 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna
yfirlysing.pdf39.99 kBLokaðurYfirlýsingPDF