is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > B.S. verkefni - Heilbrigðisvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/27603

Titill: 
 • Framlag erfðabreytileika til óróleika í Alzheimersjúkdómi
Námsstig: 
 • Bakkalár
Útdráttur: 
 • Inngangur: Alzheimer er ólæknandi taugahrörnunarsjúkdómur sem leggst þungt bæði á sjúklinga og aðstandendur. Auk þess að þjást af minnistapi og vitrænni skerðingu fær stór hluti Alzheimersjúklinga einnig geðræn einkenni á borð við árásargirni, ranghugmyndir og ofskynjanir sem leitt geta til mikils óróleika. Víðtæk erfðamengisleit (genome-wide association study, GWAS) er aðferð til að bera saman erfðabreytileika í sjúklingahópi við erfðabreytileika í viðmiðunarhópi. Fjölgenaáhættuskor (polygenic risk score, PRS) er ný aðferð í erfðarannsóknum sem metur áhættu einstaklings á að fá tiltekinn sjúkdóm út frá öllum erfðamörkum sem talin eru auka/minnka líkur á sjúkdómnum. Markmið rannsóknarinnar er að nota ofangreindar aðferðir til að kanna hvort að þeir Alzheimersjúklingar, sem verða órólegir í sínum veikindum, hafi meira af erfðabreytileikum sem leggja til geðsjúkdóma en þeir Alzheimersjúklingar sem halda ró sinni.
  Aðferðir: Sjúklingar voru flokkaðir í hópa byggt á upplýsingum um bæði geðrofslyfjanotkun og hegðunareinkenni úr RAI (resident assessment instrument) gagnasafninu. Öllum sjúklingum sem höfðu RAI mat var skipt í þrjá yfirhópa: Alzheimersjúklinga, sjúklinga með heilabilun af öðrum orsökum og sjúklinga sem höfðu enga heilabilun. Síðan var hverjum þessara yfirhópa skipt í tvo undirhópa: rólega og órólega. Eftirfarandi þættir voru bornir saman á milli undirhópa: aldur, kyn, þjóðerni, menntun og hjúskaparstaða. Fyrir hvert par af undirhópum var athugað hvort annar hópurinn hefði hærra PRS en hinn fyrir eftirfarandi svipgerðir: ADHD, Alzheimer, einhverfurófsröskun, geðhvarfasýki, lengd menntunar, úthverfu (e. extroversion), hugsýki (e. neuroticism) og geðklofa. Einnig voru framkvæmdar víðtækar erfðamengisleitir að erfðamörkum sem aukið eða minnkað gætu líkurnar á óróleika í hverjum hinna þriggja yfirhópa. Loks var tíðni þriggja erfðamarka sem leggja til eða vernda fyrir Alzheimer (APOε4, TREM2 (R47H) og APP (A673T)) í hverjum óróleikahópi borin saman við tíðni þeirra í viðmiðshópi.
  Niðurstöður: Ekki var hægt að sýna fram á að breytileikar sem leggja til geðsjúkdóma skýri óróleika í Alzheimersjúkdómi. Hins vegar kemur skýrt fram að órólegi Alzheimerhópurinn hefur meira af breytileikum sem leggja til Alzheimersjúkdóms þegar hann er borinn saman við rólega Alzheimerhópinn (P = 1.3 × 10-7). Skýringarhlutfallið (e. variance explained) var 1.29%. Órólegi hópurinn var að meðaltali um tveimur árum yngri við innlögn á hjúkrunarheimili en það útskýrir ekki fylgnina við Alzheimerbreytileikana nema að mjög litlu leyti. Engar ótvíræðar niðurstöður fengust úr víðtæku erfðamengisleitunum þegar bornir voru saman hópar órólegra og rólegra fyrir yfirhópana þrjá. OR fyrir bæði APOε4 og TREM2 (R47H) fyrir órólega undirhópa var hærra en OR tilsvarandi rólegra undirhópa á meðan OR fyrir verndandi APP (A673T) breytileikann var ávallt lægra fyrir órólegu undirhópana.
  Umræður: Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að órólegir Alzheimersjúklingar hafi sterkari erfðaþátt fyrir Alzheimer en rólegir Alzheimersjúklingar. Bæði PRS niðurstöður, sem innihalda algeng erfðamörk, og niðurstöður fyrir tvö sjaldgæf erfðamörk, APP (A673T) og TREM2 (R47H), styðja þetta. PRS niðurstöður voru enn marktækar eftir að leiðrétt hafði verið fyrir aldri (P = 5.3 × 10-5) við innlögn. PRS fyrir þær átta svipgerðir sem hér voru notaðar hafa ekki verið notuð áður til að bera saman erfðamengi órólegra og rólegra Alzheimersjúklinga svo vitað sé. Það kom á óvart að breytileikar sem leggja til geðsjúkdóma og undirþátta persónuleika virðast lítið hafa með óróleika í Alzheimer að gera. Í framhaldi af þessari rannsókn mætti skoða hvort erfðabreytileikar sem leggja til Alzheimersjúkdóms leggi einnig til óróleika í Parkinsonsjúkdómi.

Samþykkt: 
 • 15.5.2017
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/27603


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
aldag_2017-05-12_17-09-07.pdf261.38 kBLokaðurYfirlýsingPDF
AldaKGudbjornsd_Framlag_erfdabreytileika_til_oroleika_i_Alzheimer.pdf1.23 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna