is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > B.S. verkefni - Heilbrigðisvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/27604

Titill: 
 • Greining og meðferð sarkmeina í stoðkerfi á Íslandi 1986-2015
Námsstig: 
 • Bakkalár
Útdráttur: 
 • Sarkmein er flokkur sjaldgæfra krabbameina í beinum og mjúkvefjum. Þau telja um 1-2% allra illkynja æxla sem greinast á Íslandi. Sarkmein eru flest upprunnin úr miðkímlagi og skiptast í yfir 50 mismunandi vefjagerðir. Tveir meginflokkar sarkmeina eru bein- og mjúkvefjasarkmein. Beinsarkmein myndast í beinvef en mjúkvefjasarkmein myndast í mjúkvefjum (s.s. fituvef, vöðvavef og æðavef). Í þessari rannsókn var leitast við að varpa ljósi á hvernig greiningar, meðferðir og lífshorfur sjúklinga með sarkmein í stoðkerfi á Íslandi hafa breyst á árunum 1986-2015.
  Rannsóknin var afturskyggn og náði til allra einstaklinga sem greindust með sarkmein í stoðkerfi á Íslandi frá upphafi ársins 1986 til loka ársins 2015. Gögn voru fengin frá Krabbameinsskrá Íslands og úr gagnagrunni Landspítalans. Meðal upplýsinga sem var aflað voru greiningar- og dánardagur sjúklinga, staðsetning og vefjagerð æxlis, upplýsingar um meinvörp við greiningu og upplýsingar um meðferð (skurðaðgerðir, krabbameinslyfja- og geislameðferðir). Við mat á þróun greiningar, meðferðar og lifitíma voru tvö greiningartímabil skilgreind: 1986-2000 og 2001-2015.
  Á rannsóknartímabilinu greindust 283 sjúklingar með sarkmein í stoðkerfi. Af þeim voru 98 sjúklingar greindir með beinsarkmein og 185 sjúklingar greindir með mjúkvefjasarkmein. Meðalaldur við greiningu var 41 ár í tilfellum beinsarkmeina og 55 ára í tilfellum mjúkvefjasarkmeina. Kynjahlutfallið var 158 karlmenn (56%) og 120 konur (44%) og hélst hlutfallið stöðugt út rannsóknartímabilið. Hlutfall sjúklinga með meinvörp við greiningu var 14% í tilfellum mjúkvefjasarkmeina og 17% í tilfellum beinsarkmeina og ekki var marktæk breyting á þessum hlutföllum milli greiningartímabila. Æxli voru fjarlægð með skurðaðgerð í 73% tilfella og ekki var marktæk breyting á því hvernig skurðaðgerðum var háttað yfir tímabilið. Um helmingur sjúklinga gekkst undir krabbameinslyfja- og geislameðferðir. Lyfja- og geislameðferðum var beitt í 56% tilfella beinsarkmeina og í 45% tilfella mjúkvefjasarkmeina. Það var mikil aukning í notkun geislameðferða í tilfellum mjúkvefjasarkmeina en hlutfall sjúklinga sem fékk einhvers konar geislameðferð fjölgaði úr 4% í 42% milli greiningartímabila. Á tímabilinu var fimm ára lifun 66% hjá sjúklingum með beinsarkmein og 60% hjá sjúklingum með mjúkvefjasarkmein. Ekki reyndist vera marktækur munur á lifun sjúklinga milli greiningartímabila. Þó var lifun mjúkvefjasarkmeinasjúklinga nálægt því að vera marktækt betri á seinna greiningartímabilinu samanborið við hið fyrra (p = 0.057).
  Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að skurðaðgerðum hefur verið háttað á svipaðan máta út rannsóknartímabilið, aukning hefur verið á notkun geislameðferða í tilfellum mjúkvefjasarkmeina og að lifun sjúklinga með mjúkvefjasarkmein hefur mögulega bæst meðan lifun beinsarkmeinasjúklinga hefur staðið í stað. Meðferðir og horfur sjúklinga hér á landi eru sambærilegar við það sem þekkist í Skandinavíu.

Samþykkt: 
 • 15.5.2017
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/27604


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
ÞorkellEinarsson_Greiningogmeðferðsarkmeina.pdf585.29 kBLokaður til...12.05.2020HeildartextiPDF
ÞorkellEinarsson_yfirlysing.pdf307.35 kBLokaðurYfirlýsingPDF