is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > B.S. verkefni - Heilbrigðisvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/27618

Titill: 
 • Ódæmigerðar mýkóbakteríur á Íslandi 2006-2016
Námsstig: 
 • Bakkalár
Útdráttur: 
 • Inngangur og markmið: Ódæmigerðar mýkóbakteríur (ÓM) eru sjaldgæfir sjúkdómsvaldar í mönnum. Bakterían berst til manna frá umhverfinu en ekki manna á milli. Sýkingar í lungum af völdum M. avium complex (MAC) er algengasta birtingarmynd sjúkdómsins en bakteríurnar geta einnig valdið eitlabólgum, húð- og mjúkvefssýkingum og dreifsýkingum. Lungnasýkingar leggjast fyrst og fremst á aldraða og einstaklinga með veiklað ónæmiskerfi og getur greining og uppræting sýkinga oft verið erfið. Erlendar rannsóknir benda til þess að nýgengi sýkinga af völdum ÓM hafi aukist á síðastliðnum árum, og þá einkum í konum. Markmið rannsóknarinnar var að varpa ljósi á faraldsfræði ÓM hér á landi og finna hvaða mýkóbakteríutegundir eru algengastar hér á landi, hve stór hluti jákvæðra ræktana eru greindar sem sýking og hver helstu klínísku einkenni, greiningaraðferðir og rannsóknir styðja þá greiningu. Auk þess að kanna meðferð og afdrif sjúklinga.
  Efniviður og aðferðir: Framkvæmd var afturskyggn lýsandi rannsókn á Íslandi frá 2006-2016. Listi yfir jákvæðar ræktanir ÓM úr sýnum sjúklinga var fenginn frá Sýkla- og veirufræðideild Landspítalans sem hefur upplýsingar um allar berklaræktanir á Íslandi. Miðast var við skilmerki ATS/IDSA um greiningu á sýkingu. Upplýsingar um ræktanir og næmisprófanir voru fengin úr vinnslukerfinu GLIMS. Upplýsingar um sjúklinga voru fengnar úr sjúkraskrám sjúklinga og skráðar í FileMaker gagnagrunn sem síðar voru fluttar yfir í Excel þar sem tölfræðileg úrvinnsla og myndræn framsetning fór fram.
  Niðurstöður: Yfir rannsóknartímabilið fengust 154 jákvæðar ÓM ræktanir og 75 (49%) af þeim greindar sem sýking (meðalnýgengi á ári: 2,15 tilfelli/105 einstaklinga). MAC ræktaðist oftast (73%, n = 55) og var orsök flestra sýkinga, þ.á.m 83% lungnasýkinganna og allra eitlabólgnanna. M. gordonae ræktaðist næst oftast (31%, n = 47) en öll þau tilfelli voru álitin að hafa verið tilkomin vegna mengunar. Lungnasýkingar (80%) voru algengastar en þar á eftir komu húð- og mjúkvefssýkingar (13%) og eitlabólgur (7%). Aldursbundið nýgengi lungnasýkinga hækkaði verulega hjá sjúklingum eftir 50 ára aldur (meðalnýgengi á ári: 5,4 tilfelli/105 einstaklinga) og jókst með auknum aldri. Lungnasýkingar reyndust einnig vera algengari í konum (68%, n = 41) en körlum (32%, n = 19) og átti það við alla aldurshópa. Flestir (93%) sjúklinganna höfðu einn eða fleiri áhættuþátt fyrir lungnasýkingu og einungis 7% voru án allra helstu áhættuþátta. Algengustu einkenni sjúklinga með lungnasýkingu voru hósti (60%), uppgangur (55%) og slappleiki (43%). Af þeim sem voru greindir með lungnasýkingu af völdum MAC hófu 46% (n =23) meðferð en 54% (n = 27) fengu enga meðferð. Hefðbundin sýklalyfjameðferð eftir ráðleggingum ATS/IDSA var gefin hjá 91% (n = 21) sjúklinga sem hófu meðferð.
  Umræður og ályktun: Flestar sýkingarnar voru lungnasýkingar af völdum MAC þar sem tíðni sýkinga jókst með vaxandi aldri og konur áberandi oftar greindar með sýkingu en karlar. Að M. gordonae undanskinni má álykta að yfir helmingur jákvæðra ÓM ræktana teljist til raunverulegra sýkinga. Enn er óljóst hvort breyting sé á nýgengi sýkinga af völdum ÓM hér á landi og niðurstöður sýna að nýgengi (e. cumulative incidence) hér sé lægra en erlendis. Ég tel hins vegar vera vanmat á raunverulegum sýkingum hérlendis sem stafar af margvíslegum þáttum.

Samþykkt: 
 • 18.5.2017
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/27618


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Halldór Arnar Guðmundsson_Ódæmigerðar mýkóbakteríur.pdf1.06 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna
Eyðublað.pdf65.5 kBOpinnYfirlýsingPDFSkoða/Opna