Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/27652
Jóga er samsett af líkamlegum æfingum, öndun og hugleiðslu. Það hefur ekki tekist að ráða í uppruna þessarar aldagömlu indversku hefðar og er þess vegna hægt að gera ráð fyrir að hún hafi haldist á lífi öll þessi ár með frásögnum fólks af því og iðkun sinni undir handleiðslu leiðbeinanda. Jóga hefur orðið undir miklum áhrifum rita sem kallast Yoga Sutras sem talið er að hafi verið rituð einhvern tímann á bilinu 200 fyrir Krist þangað til árið 200 eftir Krist.
Jóga fluttist til Vesturheims í byrjun tuttugustu aldar og féll vel í þann jarðveg. Undir handleiðslu manna líkt og Swami Vivekananda og Swami Sivananda og hreyfinga líkt og nýaldarhreyfingarinnar blómstraði hefðin í nýjum farvegi og varð að þver-þjóðlegu fyrirbæri. Í dag er jóga að finna á lista Menningarmálastofnunar Sameinuðu Þjóðanna, UNESCO, yfir óáþreifanlegan menningararf og hefur það því fallið inn í orðræðuna um menningararf. Þá er líkt og fólk beri kennsl á verðmæti hefðarinnar með vísan í indverska forneskju og mikilvægi varðveislu hennar sem menningararfs.
Til þess að skyggnast í dýpri fleti í jóga í samtímanum byggðist rannsóknin upp á fjórum hálf opnum viðtölum. Viðmælendurnir Kristín, María, Apríl og Sólrún sögðu frá reynslu sinni og upplifunum og gáfu þannig höfundi betri innsýn í jógað. Í bland við frásagnir þeirra voru fléttuð inn hugtök úr þjóðfræði og öðrum fræðigreinum. Þau hugtök voru hópur (e. folk group), rými (e. space), hrif (e. affect), helgisiður (e. ritual) og jaðarástand (e. liminality). Hugtökin voru samfléttuð á þann hátt að saman mynduðu þau grundvöll til að útskýra á hvaða hátt jóga er ekki einungis aldagömul hefð heldur helgisiður í nútíð og með endurtekinni ástundun, ferli eða ferðalag.
Miðað við frásagnir viðmælenda myndast ákveðinn samhugur og tengsl milli fólks í jóga. Þessi hópur upplifir kenndir í rými jóga, bæði persónulegar og sameiginlegar og verður þar með til ákveðið ástand. Það getur verið jaðarástand en líkt og viðmælendur gefa til kynna á ekkert annað að skipta máli í jóga en það sem gerist þegar það er stundað. Það myndast þröskuldur nýs upphafs. Þetta nýja upphaf er eins konar umbreytingarferli og með ítrekaðri ástundun gefur helgisiðurinn þeim betri líðan. Umbreytingin er ekki einungis persónuleg heldur telja viðmælendur að hægt sé að yfirfæra hana yfir á allan heiminn og með breyttu hugarfari iðkenda verði heimurinn sjálfur að betri stað.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
BA_SunnevaKristín.pdf | 506,28 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna | |
yfirlysingBA.pdf | 789,65 kB | Lokaður | Yfirlýsing |