Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/27684
Með tækniframförum hafa lífslíkur fyrirbura og veikra nýbura stóraukist. Foreldrar þessara barna upplifa álag (e. stress) sem getur tengst ýmsum þáttum og aðstæðum í legu barns á nýburagjörgæslu.
Tilgangur verkefnisins var að þýða, forprófa og meta innra samræmi PSS-NICU mælitækisins (Parental Stressor Scale: Neonatal Intensive Care Unit) sem metur álag á foreldrum barna á nýburagjörgæslu.
PSS-NICU álagskvarðinn var þýddur yfir á íslensku með ISPOR/TCA aðferðinni og forprófaður á Vökudeild Landspítala. Lítilsháttar breytingar voru gerðar á uppsetningu álagskvarðans og kynningartextinn styttur. Mælitækið metur 46 atriði í fjórum flokkum: (A) hljóð og áreiti á deild, (B) útlit og hegðun barns og fengnar meðferðir, (C) foreldrahlutverkið og sambandið við barnið og (D) framkoma starfsfólks og samskipti. Foreldrar gáfu til kynna hve álagsvaldandi hvert atriði var með því að merkja við einn af sex svarmöguleikum; „ekkert álag“ gaf núll stig og „mjög mikið álag“ fimm stig.
Um 18 manna hentugleikaúrtak var að ræða. Foreldrum sem áttu barn á Vökudeild Landspítala á því tæplega tveggja mánaða tímabili sem rannsóknin stóð yfir vorið 2017 var boðið að taka þátt. Þátttökuskilyrði voru að foreldrar væru íslenskumælandi, yfir 18 ára aldri og að barn þeirra hefði legið á Vökudeildinni í að minnsta kosti 48 klukkustundir.
PSS-NICU álagskvarðinn var lagður fyrir hvern þátttakanda ásamt 20 viðbótarspurningum um nýburann og almennar spurningar um álag auk tveggja opinna spurninga um álagsvalda og upplifun foreldra af verunni á Vökudeild. Niðurstöður sýndu að flokkur C, „foreldrahlutverkið og sambandið við barnið“ olli mestu álagi, sem er í samræmi við niðurstöður erlendra rannsókna. Ekki kom almennt fram marktækur munur eftir kyni foreldris. Þó upplifðu feður marktækt (p<0,01) meira álag en mæður vegna ófullnægjandi upplýsingagjafar starfsfólks. Áreiðanleikastuðull PSS-NICU í heild sýndi að innra samræmið er gott og mælitækið áreiðanlegt (Cronbach’s α 0,932). Þátttakendur sem áttu dreng upplifðu marktækt meira álag en þeir sem áttu stúlku (R=-0,608, p<0,01).
Með tilkomu mælitækisins í íslenskri þýðingu verður hægt að rannsaka nánar álag á foreldrum barna á Vökudeild og nýta niðurstöður til að bæta þá hjúkrun sem þar er veitt.
Lykilorð: PSS-NICU, álag, álagsvaldar, nýburar, nýburagjörgæsla, þýðing, forprófun
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Álag á foreldrum barna á nýburagjörgæslu.pdf | 4.26 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna | |
Yfirlýsing um meðferð lokaverkefna.jpg | 119.84 kB | Lokaður | Yfirlýsing | JPG |