is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Heilbrigðisvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/27695

Titill: 
  • Skyldleiki methisillín næmra Staphylococcus aureus stofna úr blóðsýkingum á Íslandi frá árunum 2004-2016
Námsstig: 
  • Meistara
Útdráttur: 
  • Inngangur:Staphylococcus aureus er tækifærissýkill og er jafnframt mikilvægasti mannasýkilinn í ættkvíslinni Staphylococcus. Algengt er að finna S. aureus í nösum heilbrigðra manna þar sem hann lifir oftast án þess að valda hýslinum neinum vandamálum. S. aureus býr yfir mörgum og fjölbreyttum meinvirkniþáttum en þó framleiða meinvirkir stofnar ekki endilega sömu þættina. Prótein A er yfirborðsprótein og einn af mikilvægari meinvirkniþáttum bakteríunnar. Kóðað er fyrir því af geninu spa en það er að finna hjá öllum S. aureus stofnum. Prótein A kemur í veg fyrir áthúðun og þar af leiðir frumuát. Panton-Valentine leukocidin (PVL) er tvíþátta úteitur sem myndar op á himnur hvítra blóðkorna með þeim afleiðingum að innihald frumnanna lekur út. PVL myndun er ekki algeng og er aðallega tengd við húð- og mjúkvefjasýkingar en einnig alvarlegrar sýkingar, s.s. drepmyndandi lungnabólgu. PVL myndun tengist ekki auknum líkum á myndun blóðsýkingar. spa týpugreining byggir á eingena raðgreiningu þar sem X-svæði spa gensins er raðgreint. X-svæðið samanstendur af mismörgum mismunandi 24 bp endurtekningareiningum og hentar því til að stofngreina S. aureus stofna. Blóðsýking er alvarlegasti sjúkdómurinn sem bakteríur valda og er S. aureus meðal algengustu orsaka bakteríu blóðsýkinga í mönnum. Á Íslandi fjölgaði S. aureus blóðsýkingum hjá fullorðnum um 27,3% á árunum 1995-2008, en að meðaltali var nýgengið 24,5/100.000 íbúa, 18 ára og eldri, á ári. Aðeins 0,6% sýkinganna voru af völdum methisillín ónæmra S. aureus stofna (MÓSA). Rannsóknir síðustu áratuga á sameindafaraldsfræði S. aureus blóðsýkinga hafa aðallega fjallað um MÓSA sýkingar.
    Markmið: Markmið þessarar rannsóknar er að kanna fjölda methisillín næmra S. aureus blóðsýkinga á Íslandi á árunum 2004-2016 og skoða aldurs- og kynjadreifingu sjúklinganna og dánarhlutfall. spa týpugreina stofnanna og kanna hvort að tengsl séu á milli spa týpa og aldurs og kyn sjúklinganna og dánarhlutfalls. Einnig að leita að PVL meðal stofnanna og skoða tengsl PVL jákvæðra stofna við spa týpur.
    Efni og aðferðir: Allir methisillín næmir S. aureus stofnar sem ræktuðust úr blóðsýnum, frá einstaklingum sem voru 18 ára eða eldri, á Sýklafræðideild Landspítalans og Rannsóknadeild Sjúkrahússins á Akureyri á árunum 2004-2016 voru notaðir í rannsóknina. S. aureus stofnar sem ræktuðust frá sama einstakling innan 90 daga tímabils voru taldir tilheyra sömu sýkingunni og aðeins var notaður einn stofn úr hverri blóðsýkingu. Undantekning á því var ef stofnar sem ræktuðust frá sama sjúkling höfðu mismunandi sýklalyfjanæmi voru báðir stofnarnir notaðir. PCR var notað til að leita að PVL og til að magna upp X-svæði spa gensins. spa genið var svo raðgreint hjá Macrogen Europe og raðir unnar í Ridom StaphType.
    Niðurstöður: Á rannsóknartímanum greindust alls 873 S. aureus blóðsýkingar hjá 819 einstaklingum, 18 ára og eldri. Meirihluta sjúklinganna voru karlar, alls 552 (63%). Sjúklingar á aldrinum 18-40 ára voru 125 (14%), 297 (34%) á aldrinum 41-65 ára og 451 (52%) voru >65 ára. Nýgengi S. aureus blóðsýkinga var 28,7/100.000 íbúa eldri en 18 ára á ári og hækkaði með aldri sjúklinganna.Tuttugu og átta stofnar voru ekki tiltækir og ekki tókst að spa týpugreina 15 stofna. Hjá 830 stofnunum greindust 290 spa týpur sem að skiptust í 23 spa týpu klasa og 23 stakar spa týpur. Algengustu spa týpurnar voru t008 (8,3%), t012 (5,4%) og t015 (5,1%). spa týpurnar t678 (4,0%) og t15698 (1,8%) hafa aðeins greinst á Íslandi samkvæmt SpaServer (að undanskildum einum stofni af t678 sem var einangraður árið 2009 í Noregi). Ekki fundust tengsl á milli spa týpu og aldurs sjúklinga og karlar voru alltaf í meirihluta. 30 daga dánarhlutfall var frá 0,0% (t350) til 25,0% (t189). Fjörutíu og fjórir (5,4%) sjúklingar greindust með tvær til fjórar blóðsýkingar á rannsóknartímanum. Miðgildi fjölda daga sem liðu á milli sýkinga var 227 dagar (bil 5-3976 dagar). Hjá 18 (40,9%) sjúklingum var endursýking vegna sömu spa týpu í ≥ 2 skipti. PVL jákvæðir stofnar voru 38 (4,5%) og skiptust meðal 30 spa týpa. Marktæk aukning var á fjölda PVL jákvæðra stofna á rannsóknartímanum.
    Ályktanir: Aldurs- og kynjaskipting sjúklinganna var svipuð og í sambærilegum erlendum rannsóknum. spa týpugreiningin leiddi í ljós mikinn erfðafræðilegan fjölbreytileika meðal stofnanna. Algengi spa týpanna var sambærilegt við það sem þekkist annars staðar að undanskildum spa týpunum t678 og t15698. Alls voru 4,5% stofnanna PVL jákvæðir en engin tengsl voru á milli spa týpa og PVL myndunar. Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að mikilvægt er að fylgjast með faraldsfræði þessara alvarlegu sýkinga.

Styrktaraðili: 
  • Vísindasjóður Landspítalans
Samþykkt: 
  • 31.5.2017
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/27695


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Sóldís Sveinsdóttir-2017.pdf1.62 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna
Yfirlýsing-Sóldís.pdf1.28 MBLokaðurYfirlýsingPDF