Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/27740
Inngangur: Íhlutun barna með málþroskaraskanir er gríðarlega mikilvæg þessum skilgreinda hópi barna eigi þau að njóta sömu tækifæra og önnur börn. Upplýsingar um þjónustu og tilhögun íhlutunar á milli mismunandi menningar- og málsamfélaga eru þó vandfundnar. Rannsóknir hafa ítrekað sýnt fram á gagnsemi íhlutunar en skortur er á upplýsingum um hvernig henni er háttað, hverjir standa að henni og hvaða áherslur og viðmið íhlutunaraðilar nota við framkvæmd hennar.
Markmið: Markmið þessarar rannsóknar er að þýða alþjóðlega sérfræðingakönnun COST Action IS1406 af ensku yfir á íslensku. Væntanleg niðurstaða er fullbúinn spurningalisti á íslensku sem lagður verður fyrir alla talmeinafræðinga á Íslandi sem vinna með börnum með málþroskaraskanir með það að markmiði að safna upplýsingum um íhlutun íslenskra barna með málþroskaraskanir.
Efni og aðferðir: Framkvæmd þýðingar var grundvölluð á viðmiðum Beaton o.fl. og MAPI rannsóknarstofnunarinnar um þýðingar á mælitækjum. Aðlöguð aðferðafræðin felur í sér frumþýðingu, yfirlestur sérfræðinga, bakþýðingu og forprófun. Spurningalistinn var forprófaður á þremur íslenskum talmeinafræðingum.
Niðurstöður: Við frumþýðingu komu upp ýmsar hindranir því tengdu að þýða sértækt efni á milli tungumála og við að þýða atriði sem eiga misvel við í mismunandi umhverfi íhlutunar. Við yfirlestur sérfræðinga settu þeir helst út á orðalag og orðaval eða bentu á mikilvægi þess að orðaröð og merking frumtextans héldu upprunaleika sínum í íslenskri þýðingu. Samanburður bakþýðingar við frumtexta kom í heildina vel út. Ef upp kom merkinga- eða setningafræðilegur munur var hann tekinn til umfjöllunar og lagaður eftir þörfum. Niðurstöður forprófunar sýndu að flestar athugasemdir þátttakenda tengdust fyrirmælum spurninga. Þátttakendum fannst að fyrirmælin mættu vera fleiri og nákvæmari. Einnig var nokkuð um athugasemdir við orðalag og þýðingu.
Ályktanir: Þegar mælitæki eru þýdd af einu tungumáli yfir á annað er að mörgu að huga. Mikilvægt er að styðjast við viðurkenndar aðferðir við þýðingar og jafnframt skal gefa nákvæma lýsingu á ferlinu sjálfu svo hægt sé að meta vinnubrögð og hæfni samhliða gæðum þýðingarinnar. Þessi vinnubrögð og sú aðferðafræði sem var notuð hefur að öllum líkindum dregið úr áhrifum þeirrar staðreyndar að þýðing er afar huglægt ferli. Niðurstöður sýna að einstaka atriðum og orðalagi þarf að breyta áður en listinn verður lagður fyrir íslenska markhópinn. Næsta stig rannsóknarinnar er því að bera athugasemdir og hindranir sem upp komu við þýðingarferlið saman við athugasemdir annarra þýðenda annarra þjóða og meta hvort þurfi að breyta innihaldi spurningalistans.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Ritgerð til meistaragráðu í talmeinafræði - Berglind Jónsdóttir.pdf | 1,57 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna | |
Yfirlýsing.pdf | 456,95 kB | Lokaður | Yfirlýsing |