Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/28005
Markmiðið með þessu verkefni er að sýna fram á að Flæðarnar á Sauðárkróki er tilvalin staðsetning fyrir miðbæjargarð sem gæti styrkt gamla miðbæinn, verið vettvangur fyrir sameiginlegar athafnir íbúa og stuðlað að betri lýðheilsu þeirra.
Flæðarnar er grasflöt í hjarta bæjarins og það hefur verið mikill ágreiningur í gegnum tíðina um hvort að þar eigi að vera byggingar eða garður og hefur hún því staðið auð áratugum saman. Til að rökstyðja tillöguna er stuðst við ýmis gögn eins og Life Between Buildings eftir Jan Gehl um hvað gerir miðbæi lífvænlega, hugmyndafræði Patrik Grahn um grunniðkanir í görðum, Image of the City eftir Kevin Lynch fyrir svæðisgreiningu, aðalskipulag Skagafjarðar, gildandi deiliskipulag fyrir Flæðarnar og fleiri. Einnig voru gerðar fjölbreyttar greiningar til að komast að eiginleikum og göllum svæðisins sem er grunnurinn að hönnunarforsendum og byggist hönnunartillaga á þeim.
Heildarhugmynd (e. concept) garðsins er byggð á ágreiningnum um örlög hans, þ.e. hvort að þar eigi að vera byggingar-efnishyggja eða garður-hughyggja og útfært á svipaða vegu og endurreisnargarðurinn Villa Lante, þar sem tíminn er táknaður með því að í byrjun garðs er hann manngerður og stílfærður en verður villtari eftir því sem lengra er komið. Á sama hátt er garðurinn á Flæðunum manngerðurefnishyggja út frá Bankahúsi en verður villtari-hughyggja þegar nær kemur sundlauginni.
Gildi þess að gera miðbæjargarð á Flæðunum væri mikið fyrir samfélagið á Sauðárkróki þar sem það myndi ýta undir fleiri iðkanir íbúa, auka götulíf, bæta aðgang allra að grænum svæðum, bæta lýðheilsu íbúa og styrkja miðbæinn.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
BS ritgerð Sunna Ósk Þorvaldsdóttir.pdf | 13,17 MB | Opinn | Skoða/Opna |