Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/28063
Mjög almennt er leitast við að skilgreina fyrirbærið frímerki. Greint er frá upphaflegum tilgangi og notagildi slíkra límmiða. Þeir voru hugsaðir sem sérstök tegund opinbers gjaldmiðils til kaupa á afmarkaðri þjónustu – álímd staðfesting á greiddu póstburðargjaldi. Fyrirbrigðið birtist fyrst á Bretlandi 1840 en sló fljótlega í gegn á veraldarvísu. Sérmerkt íslensk frímerki komu til skjalanna 1873 í kjölfar endurbættar skipunar póstþjónustu innanlands og póstsambanda við útlönd. Við kaup á póstþjónustu voru frímerki stimpluð til ógildingar. Lá beinast við að þau flokkuðust sem rusl að loknu hlutverki.
Af óútskýrðum ástæðum urðu þó ógild og gild frímerki söfnunarviðfang mjög snemma, áhugamál sem varð rísandi tískubylgja um víða veröld. Tískubylgjan kallaði fram safnaramarkað. Frímerki fengu nýjan sess sem peningaleg verðmæti. Þau sættu gaumgæfri rannsókn sem prentafurðir, vegin og metin af sérfróðum áhugamönnum og kaupsýslufólki. Frímerkjasöfnun varð einnig útbreitt alþýðugaman og algent áhugamál barna og unglinga áður fyrr. Það kviknaði á sviðsljósi, sem lýsti á þessar smágerðu örmyndir, á gerð þeirra, táknræn skilaboð myndverkanna. Frímerkin tengdust einstökum löndum og mörkuðust gjarnan af upprunanum. Þau voru smágerð mennningarafurð en eignuðust líka stað sem kveikja vitneskjuleitar.
Íslensk frímerki komu til skjala á örlagatíma þegar aðkomustraumar hugmynda reistu spurningar um þjóðarvitund og sjálfræði landsmanna eða hvort landið væri aðeins hluti erlends konungsríkis. Tilgáta er að frímerki, sérmerkt Íslandi, hafi frá upphafi skilað árangri til mótunar sjálfstæðisbaráttu.
Frímerki urðu er á leið myndrænn skilaboðavettvangur í smásamfélagi á tímamótum. Sjálfsímynd þjóðar var á mótunarskeiði og hluti þeirrar mótunar var auðvitað hugsanleg ímynd umheimsins um land og þjóð. Hvoru tveggja var unnt að styrkja með smáskilaboðum fólgnum í ásýnd frímerkja og til slíks átaks var stofnað. Árangurinn er ekki málanlegur en tilgátan verður að nægja.
Efni ritgerðarinnar snýst um afmarkað tjáningarform myndlistar í liðnum kafla þjóðarsögunnar. Endurspeglun hugmynda í hönnunarafurðum, tilgátur um áhrif hönnunar á hugmyndir. Tímaramma umfjöllunar líkur 1930 þegar dyr opnast fyrir nýja sýn, ákveðin kaflaskil verða í hönnun íslenskra frímerkja.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Frímerki til frásagnar.pdf | 8,03 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |