Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/28217
Tilgangur þessarar rannsóknar er að kanna hver samkeppnishæfni íslenskra hugbúnaðarfyrirtækja er og hvernig þau geta náð samkeppnisforskoti á alþjóðlegum markaði. Samkeppnishæfni íslenskra hugbúnaðarfyrirtækja er skoðuð út frá demantskenningu Michael E. Porter. Farið er yfir helstu kenningar Porters - fimm krafta líkanið, demantskenninguna og virðiskeðjuna ásamt VRIO eftir Jay B. Barney, en öll þessi líkön eiga það sameiginlegt að geta sýnt fram á hvernig hægt sé að auka samkeppnishæfni. Klasar eru kynntir og áhrif þeirra á samkeppnishæfni atvinnugreinar. Farið er stutt yfir sögu hugbúnaðariðnaðarins, bæði alþjóðlega og á Íslandi.
Rannsóknin er byggð á fyrirliggjandi heimildum ásamt hálf opnum viðtölum sem byggð eru á demantskenningunni og klösum. Tekin voru viðtöl við sex stjórnendur íslenskra hugbúnaðarfyrirtækja.
Helstu niðurstöður rannsóknarinnar eru þær að íslenskur hugbúnaður er samkeppnishæfur. Ekki er hægt að alhæfa að íslenskur hugbúnaður standi sig betur eða verr en annars staðar. Íslenski markaðurinn er mjög lítill, sem hefur bæði kosti og galla. Íslenskir neytendur eru kröfuharðir, framsýnir og tæknivæddir - sem gerir Ísland að góðu prufuumhverfi. Einnig gefa eftirspurnarskilyrði á heimamarkaði góða vísbendingu um eftirspurnarskilyrði á erlendum mörkuðum. Innviðir landsins eru sérlega góðir, sem dæmi má nefna að 96% heimila á Íslandi eru með nettengingu, sem er hæsta hlutfall í Evrópu. Nokkur atriði mætti þó bæta til að styrkja demantinn og þar með samkeppnishæfni íslenska hugbúnaðariðnaðarins. Dæmi um það eru gengissveiflur krónunnar, sem er ein mesta ógn fyrirtækja í útflutningi á Íslandi. Mikilvægt er að styðja við nýsköpun og þróunarstarf og þarf því að styðja við íslensk sprotafyrirtæki. Með tilkomu fleiri sprotafyrirtækja mun samkeppni á innanlandsmarkaði einnig aukast sem getur haft jákvæð áhrif á samkeppnishæfni atvinnugreinarinnar. Breið þekking starfsfólks í íslenska hugbúnaðargeiranum er kostur en vöntun er á fólki með sérþekkingu. Þá er sérhæfðu námi við gerð hugbúnaðar ábótavant hér á landi.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
BSc-lokaritgerð_Lokaútfgáfa1.pdf | 2.32 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |