Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/28261
Rannsókn þessi miðar að því að varpa ljósi á þá þætti sem gætu skýrt verðlagningu íslenskra hlutabréfa í almennum hlutafjárútboðum eftir hrun og hvort fjárfestar hafi svo gott sem fengið gefins peninga með því að fá úthlutað bréfum í þeim útboðum sem hafa átt sér stað síðan hrunið varð. Þau útboð sem rannsökuð voru áttu sér stað á árunum 2011–2016. Gengisþróun og umframávöxtun hlutabréfanna eftir nýskráningu á markað var rannsökuð til skamms tíma og viðtöl tekin við sérfræðinga úr atvinnulífinu. Niðurstöður rannsóknarinnar leiddu í ljós að útboðsafsláttur félaga eftir hrun var að meðaltali um 7,3% og rúmlega sex og hálfur milljarður króna var skilinn eftir á borðinu í útboðunum. Marktækur munur var á ávöxtun á fyrsta degi viðskipta á bréfum félaga sem fóru í útboð árið 2013 og fyrr og þeirra sem fóru í útboð árið 2014 og seinna. Niðurstöður rannsóknarinnar leiddu enn fremur í ljós að uppsöfnuð umframávöxtun til skamms tíma eftir skráningu var hærri á hlutabréfum félaga sem fóru í útboð árið 2013 og fyrr en á hlutabréfum félaga sem fóru í útboð árið 2014 og seinna. Benda niðurstöðurnar til að fjárfestar hafi svo gott sem fengið gefins peninga með því að fá úthlutað bréfum í útboðum Haga, Regins, Vátryggingafélags Íslands og Tryggingamiðstöðvarinnar. Lesa má úr niðurstöðunum að meiri hvati hafi verið til þess að undirverðleggja hlutabréf í útboðum nær hruninu. Eftir því sem tíminn leið og markaðurinn þroskaðist hafi tilhneigingin til að undirverðleggja hlutabréf í útboðum dvínað. Benda þær jafnframt til þess að þróun til framtíðar sé á þá leið, að minnsta kosti til skamms tíma.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
BScRitgerdSindriFreyr.pdf | 893.66 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |