is Íslenska en English

Lokaverkefni

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > Kandídatsritgerðir >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/28312

Titill: 
 • Hópmeðgönguvernd: Fræðileg samantekt
 • Titill er á ensku Group Antenatal Care
Útdráttur: 
 • Hópmeðgönguvernd er tiltölulega nýtt form meðgönguverndar á heimsvísu en hefur verið innleitt í mörgum löndum í kringum okkur á síðustu árum. Rannsóknir hafa sýnt fram á ýmsa kosti fyrirkomulagsins fyrir skjólstæðinga, fagfólk og samfélagið í heild. Mikilvægt er að ljósmæður kynni sér nýjungar er tengjast faginu í þeim tilgangi að veita besta mögulega þjónustu á hverjum tíma í samræmi við nýjustu gagnreyndu þekkingu. Í þessari fræðilegu samantekt var sérstök áhersla lögð á að kynnast hugtakinu hópmeðgönguvernd ásamt því að skoða upplifun barnshafandi kvenna af þjónustunni. Sjónum var sérstaklega beint að upplifun af líkamlegum skoðunum og áhættumati í slíku fyrirkomulagi, upplifun kvenna af fræðslu í meðgönguvernd og upplifun af stuðningi frá ljósmæðrum og öðrum konum í hópnum. Heimilda var leitað í gagnasöfnunum PubMed, Scopus, Cinahl og Google Scholar á tímabilinu febrúar til mars 2017. Í heild voru notaðar 19 rannsóknargreinar auk klínískra leiðbeininga um meðgönguvernd á Íslandi.
  Í hópmeðgönguvernd hittast 8-12 konur ásamt tveimur ljósmæðrum í 90-120 mínútur í senn tíu sinnum yfir meðgönguna. Rannsóknir sýndu að traust myndaðist í hópunum og jafnvel vináttusambönd sem entust út fyrir meðgöngu og fæðingu. Auk þessa fengu konur lengri tíma með ljósmóður en í hefðbundinni meðgönguvernd, öðluðust meiri þekkingu á barneignarferlinu og voru ánægðari með þjónustuna. Konur í hópmeðgönguvernd voru líklegri en konur í hefðbundinni meðgönguvernd til að stuðla að eigin heilbrigði og áttu auðveldara með að greina á milli eðlilegra meðgöngukvilla og vandamála er þörfnuðust aukins eftirlits og þörfnuðust því síður aukinnar heilbrigðisþjónustu.
  Konur í hópmeðgönguvernd hrósa fyrirkomulaginu og eru jafnvel ánægðari en þær konur sem sækja hefðbundna meðgönguvernd (C. Klima, Norr, Vonderheid og Handler, 2009). Þær eru ánægðar með þá fræðslu og þann stuðning sem þær fá í hópmeðgönguverndinni og finnst þær vel undirbúnar fyrir fæðinguna og foreldrahlutverkið (Ickovics o.fl., 2007) enda sýna rannsóknir að konur í hópmeðgönguvernd öðlist meiri þekkingu á barneignarferlinu á meðgöngu en þær sem sækja hefðbundna meðgönguvernd (Baldwin, 2006). Í hópmeðgönguvernd verja konur lengri tíma með ljósmóður en í hefðbundinni meðgönguvernd. Auk þess að hafa þar af leiðandi fleiri tækifæri til spurninga öðlast þær aukna þekkingu, sem þær vissu ekki að þær skorti, þegar þær hlusta á spurningar annarra kvenna í hópnum og þau svör sem þær fá (McNeil o.fl., 2012).
  Rannsóknir hafa sýnt fram á ýmsa kosti hópmeðgönguverndar fyrir skjólstæðinga, fagfólk og samfélagið í heild. Hópmeðgönguvernd er samkvæmt rannsóknum sjálfsstyrkjandi, valdeflandi og skemmtileg leið til að veita konum á meðgöngu og stuðningsaðilum þeirra, heilsuvernd, fræðslu og stuðning á hagkvæman og áhrifaríkan máta.
  Lykilhugtök: Hópmeðgönguvernd, meðgönguvernd í hóp, stuðningur á meðgöngu.

Samþykkt: 
 • 15.6.2017
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/28312


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Hópmeðgönguvernd-prentvæntEBR.pdf415.55 kBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna
samþykki.pdf347.59 kBLokaðurYfirlýsingPDF