Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/28346
Markmið rannsóknarinnar sem ritgerð þessi byggist á er að bregða ljósi á upplifun og reynslu kvenna úr Dölunum sem saumuðu nýjar flíkur úr notuðum fatnaði. Verkefnið er lýsandi rannsókn sem byggist á öflun skriflegra heimilda og viðtölum við konur sem á sínum yngri árum saumuðu nýjar flíkur upp úr notuðum klæðnaði, mest á ung börn sín en einnig á aðra í fjölskyldunni.
Verkefnið var unnið eftir aðferðum eigindlegra rannsókna, tekin voru opin og hálfstöðluð viðtöl við 11 konur sem búsettar voru í Dalasýslu til lengri eða skemmri tíma á árunum 1940-1980. Í viðtölunum lýstu þær aðbúnaði, aðstæðum, verklagi og rifjuðu upp minningar frá þeim tíma er þær voru að alast upp og jafnframt frá þeim tíma þegar þær voru að ala upp sín börn.
Helstu niðurstöður rannsóknarinnar gefa til kynna að nokkuð almennt hafi verið að saumað væri upp úr notuðum flíkum. Á árunum sem rannsóknin tekur til má lesa úr orðum viðmælendanna að fólk hafði ekki háar ráðstöfunartekjur. Konurnar sem rætt var við upplifðu þetta sem sjálfsagðan hlut og félagslegar og fjárhagslegar aðstæður hafa líklega krafist þess af þeim að þær hefðu vilja, getu og færni á umræddu sviði.
Hvati þess að viðmælendur nýttu gamlan fatnað í nýjan var nýtni, sparsemi, vöntun á nýjum efnum og oft var um lélega vöru að ræða sem þeim stóð til boða. Fyrst og fremst voru það börn sem klæddust fatnaðinum. Einkennandi var að vandað var til verka og lagt var upp úr að ekki væri sjáanlegt að nýju flíkurnar væru úr notuðum efnum. Jafnvel þó nýtni sem þessi hafi verið viðtekin venja víða og jafnvel á flestum
heimilum þá var slíku ekki flaggað.
Lykilorð: Húsmóðir, heimasaumur, fatnaður, að venda, endurnýting, nýtni,
nægjusemi, sparsemi, hirðusemi, verkkunnátta, viðhorf
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
FjolaBorgSvavarsdottir_Ma_lokaverkefni.pdf | 17.83 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |