Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/28362
Verkin mín tengjast oft persónulegri upplifun minni og umhverfi. Þau eru spunnin út frá reynslu, sjálfsmynd og áhrifavöldum og þannig vona ég að þau spegli menningarlegt samhengi mitt. Þau fela oft í sér túlkun og úrvinnslu á áhrifum og afleiðingum kvenlegra staðalímynda og sérstaklega áhrif klámvæddrar menningar, út frá persónulegu sjónarhorni. Ég máta mig/verkin mín við bylgjur femínismans og skoða þau í samhengi við listamenn sem vinna á svipuðum miðum, þar sem um er að ræða kvenlega frásögn og femíníska umræðu. Vangaveltur um stöðu konunnar og femínisma í verkum mínum fylgja því sem nefnt hefur verið fjórða bylgja femínisma sem felur í sér viðurkenningu á að í samfélagi okkar er kynbundinn mismununn en á annan hátt en áður því innan hennar birtist ákveðin uppgjöf, viðurkenning á veikleikum og afleiðingum samtímamenningar og síð-kapitalisma á einstaklinga. Hugmyndafræðin sem einkennir nálgun innan fjórðu bylgjunnar er um margt flókin og viðamikil enda er hún enn í mótun. Verkin mín virðast oft mjög persónuleg af því að ég er sjálf þátttakandi í þeim og afstaða mín til viðfangsefnisins í verkunum er gjarnan óljós af ásettu ráði, jafnvel mótsagnakennd.Kvenlíkaminn og kvenleiki eru hlaðin viðfangsefni en í ritgerðinni er fjallað um hvernig hvort tveggja ber merkingu og hvernig merkingunni er síðan viðhaldið. Ég túlka áfhrif klámvæddrar menningar, hlutgerfingu kvenlíkamans og kvenlegra staðalímynda á mig í verkum mínum. Í sumum þeirra er markmiðið að tæla heiminn með sviðsettri nánd við áhorfandann en í öðrum er köldu vísindalegu sjónarhorni beitt til að skapa „hlutlausa,” afstöðu til viðfangsefnisins.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Elísabet Birta Sveinsdóttir_Lokaverkefni til BA-gráðu í myndlist.pdf | 3.27 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |