Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/28428
Rannsóknin fjallar um heterósexíska orðanotkun nemenda í íslenskum framhaldsskólum, algengi hennar, mun eftir kyni, líkindi á notkun hennar í ýmsum aðstæðum og áhrif hennar ásamt upplifun hinsegin nemenda á orðanotkuninni. Heterósexísk orðanotkun getur verið fjölbreytt, dæmi eru notkun orðsins gay um heimskulegan eða asnalegan hlut eða hegðun eða faggi/faggalegt yfir óæskilega hegðun. Gögnum var safnað með spurningalista og viðtölum. Þátttakendur voru 18 ára eða eldri, gagnkynhneigðir og hinsegin nemendur í þrem skólum af höfuðborgarsvæðinu bæði með bekkjar- og áfangakerfi (N=149). Þátttakendur sem notuðu heterósexískt orðalag voru á milli 4,5% og 22% að undanskildum orðunum kynskiptingur (um 34%) og faggi/faggalegt (rúmlega 54%) yfir óæskilega hegðun sem var algengasta orðanotkunin. Strákar voru líklegri til að nota sum þeirra orða sem spurt var um en þátttakendur notuðu orðalagið ofast utan skóla. Milli 48%-65% þátttakenda upplifði einhver óþægindi við að heyra heterósexískt orðalag að undanskildu orðalagi um transfólk (31,5%-44,5% fundu einhver óþægindi). Hinsegin þátttakendur (fjórir) upplifðu að heterósexískt orðalag væri sjaldgæft í framhaldsskólum og töldu stráka líklegri til að nota það. Þeim þótti orðalagið pirrandi og töldu notkun þess lýsa þroskaleysi eða þröngsýni. Rannsóknin gefur hugmyndir um algengi heteróesxískrar orðanotkunar hérlendis. Samanburður við erlendar rannsóknir er erfiður vegna ólíkra spurninga. Heterósexískt orðalag er misjafnlega algengt, en um helmingur allra þátttakenda rannsóknarinnar finnur til óþæginda af mörgum orðanna sem falla undir það. Á Íslandi eru fáar rannsóknir til um efnið.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Adalbjorg_Adalsteins_Master_Loka3105.pdf | 1.26 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna | |
MSkil2.pdf | 518.66 kB | Lokaður | Yfirlýsing |