Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/28441
Greinargerð þessi er hluti af lokaverkefni til M.Ed.-gráðu í kennslufræði grunnskóla við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Henni fylgja stafræn verkefni og námsleikir sem höfundur hefur samið og tekið saman.
Verkefnið snýst um hönnun stafrænna verkefna og námsleikja til nota í sögukennslu á unglingastigi grunnskóla. Leitast verður við að draga fram og útvíkka efni kennslubókarinnar Sögueyjan, 3. hefti, 1900-2010 (hér eftir nefnd Sögueyjan) eftir Leif Reynisson en hún er þriðja heftið í flokki námsbóka um Íslandssögu fyrir grunnskóla. Gert er ráð fyrir að nemendur noti spjaldtölvur eða annan stafrænan búnað við kynningar á völdu efni bókarinnar. Nauðsynlegt er að nemendur temji sér gagnrýna hugsun og sjálfstæðar skoðanir. Reynt er að tvinna þessa þætti saman, draga fram efnisatriði í bókinni og vekja um leið áleitnar spurningar sem ýta undir ígrundun og umræður. Námsefnið hefur sérstaklega verið sniðið fyrir forrit sem eru vinsæl hjá notendum iPad, spjaldtölva frá Apple, en þau eru: Kahoot!, Socrative, Quizlet og iMovie. Af þeim sökum er sérstaklega fjallað um þróun upplýsingatækni og hver áhrif hennar hafa verið á skólastarf síðustu ára. Hér á landi hafa nokkrir grunnskólar gengið lengra en aðrir og dreift spjaldtölvum á heilu árgangana. Áhrif þess á skólastarfið eru reifuð og rætt um umsagnir og skoðanir kennara, sem og þá kennsluhætti sem hafa verið prófaðir í tengslum við þessa tæknivæðingu.
Ekki er hægt að segja skilið við þróun upplýsingatækni án þess að skoða sérstaklega hvernig fræðimenn í námskenningum hafa tjáð sig um þróun hennar á undanförnum árum. Því var í þessari umfjöllun brugðið á það ráð með hliðsjón af þessari greinargerð og meginverkefni hennar að minnast á þær kenningar sem helst hafa þótt hafa þýðingu fyrir skipulag kennslu og hönnun námsefnis.
Með aukinni spjaldtölvuvæðingu grunnskólanna eykst þörfin fyrir stafrænt námsefni að sama skapi. Þá er einnig mikilvægt að námsefnið sé á íslenskri tungu. Það er nokkuð á brattann að sækja í þeim efnum og meira má ef duga skal.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
2017_06_skemman_yfirlysing_lokaverkefni_30.05.17.pdf | 164.6 kB | Lokaður | Yfirlýsing | ||
Ari Jóhannsson_Leikjamidad-namsefni-og-efnisgerd.pdf | 1.78 MB | Lokaður til...01.01.2027 | Greinargerð |