Please use this identifier to cite or link to this item: https://hdl.handle.net/1946/28464
Markmið rannsóknarinnar er að gera grein fyrir miðlun kennara á fræðslu um kynjajafnrétti í grunnskóla og því hvort viðhorf kennara, aldur eða kyn þeirra hafi áhrif á miðlun á kynjajafnrétti. Rannsóknarspurning verkefnis er: Hvernig birtist kynjajafnrétti í kennslu og fræðslu grunnskólakennara? Nokkrar undirspurningar eru hafðar til hliðsjónar og hljóða á eftirfarandi hátt: Hvernig fer kennsla eða fræðsla um kynjajafnrétti fram, hvaða kennsluefni er notað, hver eru viðhorf kennara til kynjajafnréttis og hefur það áhrif á miðlun hans á efninu? Málefnið er mikilvægt þar sem ójafnrétti kynjanna getur birst á marga vegu í skólastarfi jafnt og í samfélagi. Kynjajafnréttisfræðsla virðist ekki vera á dagskrá skólanna en samkvæmt Aðalnámskrá grunnskóla (2011), lögum um grunnskóla nr. 91/2008 og lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 10/2008 skal efla slíka fræðslu í grunnskólum. Nauðsynlegt er að búa nemendur undir jafna þátttöku í atvinnulífinu, á heimillinu og í samfélaginu öllu. Í rannsókninni er tekið hlutfallslega lagskipt slembiúrtak úr skólum landsins og spurningalisti sendur á 334 kennara. Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að allajafna eru kennarar jákvæðir gagnvart kynjajafnréttisfræðslu. Enginn munur fannst á viðhorfum milli kynja eða aldurshópa. Hins vegar fannst munur á milli svara þeirra sem töldu sig vera femínista og þeirra sem gera það ekki. Þeir sem töldu sig vera femínista voru staðfastari í sínum skoðunum og virtust fjalla oftar um málefnið. Birtingarmynd kynjajafnréttis í kennslu kom aðallega fram í umræðum í kennslustundum, en þátttakendur fjölluðu um málefnið þegar tilefni gafst og þá helst í afmörkuðum kennslustundum, eins og lífsleikni eða bekkjartímum. Fáir kennarar notuðu útgefið námsefni og leituðu sér aðallega að efni á internetinu. Svo virðist sem markviss kynjajafnréttisfræðsla eigi sér ekki stað. Rannsóknin reynir að varpa ljósi á mikilvægi þess að fræða grunnskólanemendur um kynjajafnrétti. Ríkari þekking kennara á kynjafræði og jákvætt viðhorf eykur líkur á því að málefnið rati í skóla og til nemenda.
Filename | Size | Visibility | Description | Format | |
---|---|---|---|---|---|
M.ed.ritgerd.dba1.pdf | 3.15 MB | Open | Heildartexti | View/Open | |
2016_03_skemman_yfirlysing_lokaverkefni_29.03.16.pdf | 208.14 kB | Locked | Yfirlýsing |