Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/28494
Mikið er rætt um dvínandi áhuga barna hér á landi á bóklestri og lélegan árangur þeirra í læsiskönnunum. Í þessari rannsókn sem byggir á eigindlegum rannsóknaraðferðum er rætt við sex börn í 3. og 4. bekk, úr þremur grunnskólum á Norðurlandi. Öll börnin glíma við lestrarerfiðleika en markmið rannsóknarinnar er að varpa ljósi á upplifun þeirra af lestrarnámi og líðan í skólanum, og hvernig þau bregðast við þeim erfiðleikum sem þau þurfa að fást við í náminu. Þá var jafnframt rætt við tvo sérkennara um sjónarhorn þeirra á vanda ungra barna með lestrarerfiðleika.
Verkefnið byggir á þeim fræðilega grunni sem rannsóknir síðustu áratuga
hafa dregið fram í dagsljósið um eðli þess vanda sem börn með lestrarerfiðleika glíma við. Um þróun lestrarfærninnar, eðli og orsakir lestrarerfiðleika, og hvernig hægt er að varpa ljósi á styrkleika og veikleika í lestrarferlinu út frá einfalda lestrarlíkaninu.
Rannsóknarspurningin sem sett var fram er: „Hvert er viðhorf ungra barna
með lestrarerfiðleika til lesturs, skólans og sérkennslu?“ Niðurstöðurnar benda til þess að börnin séu almennt ánægð með skólana sína og þeim finnst yfirleitt að þau séu að fá næga aðstoð þar og eru sátt við að fara í sérkennslu. Erfiðleikar eru þó vissulega til staðar því fram kemur að börnin lesa sér yfirleitt ekkert til skemmtunar þrátt fyrir að hafa áhuga á því og fyrir kemur að sum þeirra vilji ekki
fara í skólann á morgnana vegna þess að þar bíða lestrartengd verkefni sem þeim finnst þau ekki ráða við. Eins sýna niðurstöðurnar að flest eiga börnin, eða hafa átt, í félagslegum erfiðleikum, og greina má lágt sjálfsálit hjá flestum þeirra.
Út frá þessu má álykta að börn með lestrarerfiðleika sé afar viðkvæmur hópur sem skólinn þarf að hlúa sérstaklega vel að bæði námslega og félagslega. Þrátt fyrir aukna áherslu á „snemmtæka íhlutun“ við yfirvofandi lestrarvanda, er ljóst að slík inngrip verða að vera gríðarlega vel skipulögð, með áherslu á barnið sem einstakling og með heildarsýn á nemandann.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
lokaskjal.pdf | 808.49 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna | |
Gerður_Geirsd_2016_03_skemman_yfirlysing_lokaverkefni_29.03.16.pdf | 331.86 kB | Lokaður | Yfirlýsing |