is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Menntavísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Menntavísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/28505

Titill: 
 • ,,Að læra er kúl, en það er samt ógeðslega leiðinlegt." : hugmyndir og viðhorf nemenda sem glíma við stærðfræðiverkefni í litlum hópi
Námsstig: 
 • Meistara
Útdráttur: 
 • Oft er talað um að stærðfræðinám hafi mikil áhrif á tilfinningar nemenda. Þeir geta orðið mjög pirraðir þegar gengur illa og glaðir þegar vel gengur. Það er því mikilvægt að finna leiðir til að muna eftir þessum jákvæðu tilfinningar þegar gengur illa og nota þær til að skapa áhuga. Nemendur sjá stærðfræði gjarnan sem frammistöðufag sem felst í því að svara spurningum og reikna dæmi á ákveðinn hátt (Boaler, 2016). Ýmsir fræðimenn benda hins vegar á að mikilvægt sé fyrir nemendur að læra til skinings og átta sig á öllum þeim tengslum sem eru að finna í stærðfræðinni.
  Markmið þessarar rannsóknar var að varpa ljósi á hugmyndir nemenda þegar þeir glíma við stærðfræðiverkefni í litlum hópi, hvernig þeir sýna þekkingu sína og hvernig áhugi þeirra kviknar. Einnig var leitast eftir að skoða hvaða viðhorf þessir nemendur hafa til stærðfræði og stærðfræðináms og - kennslu. Rannsakandi hitti tvo hópa með fimm nemendum í fjögur skipti og lagði fyrir verkefni í rúmfræði. Rannsóknin var unnin eftir eigindlegum rannsóknaraðferðum. Gagnaöflun fór fram með myndbandsupptökum á samveru rannsakenda með nemendum, athugunum og umræðum við nemendur. Þemagreining var notuð til þess að greina gögnin.
  Nemendur rannsóknarinnar voru áhugasamir um að taka þátt í rannsókninni og sýndu viðfangsefnum hennar áhuga. Niðurstöður sýndu þó að viðhorf þeirra til stærðfræði er heldur neikvætt. Nemendur eru samt sem áður spenntir fyrir að læra eitthvað nýtt og kalla á breytingar á hinni hefðbundnu stærðfræðikennslu. Einnig kom í ljós að nemendur hafa ekki fengið mikla þjálfun í að tjá sig um stærðfræði. Þeir lenda því gjarnan í erfiðleikum þegar þeir reyna að orða hugmyndir sínar og tengja hversdagslega merkingu orða við merkingu stærðfræðihugtaka. Hinum félagsstærðfræðilegu viðmiðum var ögrað í rannsókninni og voru nemendur spenntir og áhugasamir að sjá stærðfræðinám og -kennslu í nýju ljósi.
  Viðhorf nemenda gagnvart kennslustundum rannsóknarinnar var mun jákvæðara en viðhorf þeirra til hefðbundinnar stærðfræðikennslu. Út frá því má túlka að þau neikvæðu viðhorf sem nemendur hafa til stærðfræðinnar beinist í raun ekki að viðfangsefnum stærðfræðinnar heldur að fyrirkomulagi kennslustunda í stærðfræði. Nemendur upplifðu mun fleiri jákvæðar tilfinningar en neikvæðar og má það meðal annars rekja til þess að nemendur unnu saman í litlum hópi í næði þar sem lítil pressa var á að klára ákveðin verkefni. Einnig fengu þeir tækifæri til þess að ígrunda viðfangsefnin og ræða um hugmyndir sínar.
  Það að breyta aðstæðum nemenda og gefa þeim tækifæri til þess að fást við stærðfræðileg viðfangsefni í afslöppuðu umhverfi er ein leið til að auka hinar jákvæðu tilfinningar. Sigrarnir verða einnig fleiri þegar ekki er einblínt á frammistöðu og einhæfar reikningsaðgerðir.

Samþykkt: 
 • 28.6.2017
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/28505


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
ritgerd_lokautgafa.pdf4.35 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna
2016_03_skemman_yfirlysing_lokaverkefni_29.03.16.pdf112.96 kBLokaðurYfirlýsingPDF