Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/28519
Tilgangur rannsóknarverkefnisins var að varpa ljósi á það hvernig unglingar á einhverfurófi lýsa upplifun sinni af félagslegum samskiptum í skóla og tómstundastarfi. Hingað til hefur aðallega verið fjallað um einhverfurófið með tilliti til meðferða og aðferða og fyrir liggja talsvert mikið af slíkum rannsóknum. Lítið hefur hins vegar verið spurt um upplifun þeirra sem greindir hafa verið á einhverfurófinu en þeir eru sérfræðingar um líf sitt og reynslu. Félagsleg sjónarhorn móta rannsóknina, með félagslegt réttlæti að leiðarljósi. Til að fá breiðari mynd af málefninu, var jafnframt leitað eftir sýn foreldra. Ritgerðin byggir á niðurstöðum eigindlegrar viðtalsrannsóknar og byggir gagnagreining á nálgun grundaðrar kenningar. Gagnaöflun fór fram á árunum 2016 og 2017 og voru þátttakendur í rannsókninni þrettán talsins, sex unglingar og sjö foreldrar. Unglingarnir voru á aldrinum 13-16 ára, tvær stúlkur og fjórir drengir, sem fengið höfðu greiningu á einhverfurófi. Draga má þá ályktun af niðurstöðum að unglingar á einhverfurófi spegli sig gjarnan í samskiptum við aðra, til að þóknast öðrum og falla betur inn í samfélagið. Þeir eiga vini samkvæmt eigin skilgreiningu en upplifa þrátt fyrir það erfiðleika í samskiptum við aðra jafnaldra. Samskipti þeirra við jafnaldra utan skóla, fara að mestu leyti fram í gegnum samfélagsmiðla og á netheimur stóran þátt í lífi þeirra. Unglingarnir eiga almennt auðveldara með að umgangast og eiga samskipti við fullorðna en jafnaldra. Foreldrar unglinganna upplifa félagslega stöðu þeirra verri heldur en unglingarnir gera sjálfir. Foreldrar telja mikilvægt að starfsfólk skóla fái fræðslu um einhverfurófið og leggi sig fram um að kynnast einstaklingunum og sérkennum þeirra. Þátttakendur kalla eftir því að skólarnir mæti nemendum betur á forsendum hvers og eins. Niðurstöður gefa skýrar vísbendingar um að leggja þurfi meiri áherslu á félagslega þátttöku, samskiptafærni og myndun vinatengsla í skólastarfi, til að ná betur til þeirra einstaklinga sem standa höllum fæti félagslega.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Þetta er spurning um hugarfar.pdf | 1,79 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna | |
Yfirlýsing vegna M.Ed. verkefnis.pdf | 103,31 kB | Lokaður | Yfirlýsing |