Please use this identifier to cite or link to this item: https://hdl.handle.net/1946/28534
Ritgerð þessi er lokaverkefni til BA-prófs í uppeldis- og menntunarfræði við Háskóla Íslands. Leitast verður við að kanna hver áhrif skilnaðar eru á börn og hvað þeim er fyrir bestu eftir að skilnaður hefur átt sér stað. Þær margvíslegu rannsóknir sem skoðaðar voru við skrif þessarar ritgerðar benda til þess að skilnaður er almennt erfiður fyrir börn. Slík reynsla getur haft verulegar afleiðingar í för með sér en leitt hefur verið í ljós að meiri líkur eru á að skilnaðarbörn glími við félagslega-, sálræna-, hegðunar- eða námsörðugleika. Íslenskar sem og norrænar rannsóknir hafa sýnt fram á að ákveðnar aðferðir geti stuðlað að betri aðlögun barna að nýjum aðstæðum og komið þannig að einhverju leiti í veg fyrir fyrrgreinda örðugleika. Það sem hefur hvað mest áhrif á börn eru þær breytingar sem skilnaðurinn hefur í för með sér, en ef foreldrar vinna vel saman eru meiri líkur á því að skilnaðurinn hafi ekki eins neikvæð áhrif. Tilgangur ritgerðar er að varpa ljósi á hver áhrif skilnaðar eru á börn og velta upp þeim leiðum sem mögulega gætu takmarkað neikvæð áhrif. Flestar niðurstöður benda til þess að svo hægt sé að draga úr neikvæðum áhrifum skilnaða þurfi að vinna með nokkra lykilþætti. Í fyrsta lagi er mikilvægt að foreldrar hafi hagsmuni barnanna að leiðarljósi við ákvörðunartökur. Í öðru lagi verða foreldrar að leggja deilumál sín til hliðar í návist barna sinna, og ávallt tala vel til og um hitt foreldrið. Þannig geta þeir náð samvinnugrundvelli sem nauðsynlegur er til að vinna að sameiginlegum markmiðum í málefnum barna sinna, komið á og framfylgt reglulegum umgengnisrétti og jafnvel í bestu tilvikum deilt með sér forsjá. Það getur líka skipt máli að foreldrar sjái til þess að breytingar eins og flutningar milli hverfa séu í lágmarki, að börnin geti haldið áfram í sama skóla og að fjarlægð á milli foreldrahúsa sé ekki meiri en svo að auðvelt sé fyrir börn að eiga samverustundir með báðum foreldrum.
Filename | Size | Visibility | Description | Format | |
---|---|---|---|---|---|
BA ritgerð Hugrúnar Árnadóttur 09.05.17 .pdf | 999,82 kB | Open | Heildartexti | View/Open | |
Hugrún Árnadóttir yfirlýsing.pdf | 435,7 kB | Locked | Yfirlýsing |