Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/28545
Það eru margir sem hafa áhrif á lífsleið einstaklings. Fjölskylda, vinir og starfsfólk í skólum og öðru skipulögðu starfi fyrir börn og ungmenni eiga þar stóran þátt en áhrif jafningja eru einnig mikil. Ætla má að allir einstaklingar tilheyri og verði fyrir áhrifum af hópum á degi hverjum. Innan hópa eru oft leiðtogar sem geta haft áhrif á hlutskipti og upplifun annarra meðlima hópsins. Slíkt áhrifavald skapast þeim sem búa yfir ákveðnum auð innan hópsins, félagslegum, menningarlegum eða efnahagslegum. Auður einstaklings markar stöðu hans innan hópsins. Áhrif leiðtoga á aðra hópmeðlimi og hópinn sjálfan geta verið bæði jákvæð og neikvæð. Það er eftir því hvernig leiðtoga ferst að nota áhrifavald sitt.
Megintilgangur þessarar rannsóknar er að kanna viðhorf fagfólks á sviði skóla- og frístundastarfs til leiðtoga innan þeirra hópa sem það vinnur með. Leitast verður við að varpa ljósi á ólíkar birtingamyndir leiðtoga, áhrif þeirra innan hópa og hvernig má vinna að því að þjálfa upp jákvæða leiðtoga í starfi með börnum og ungmennum.
Rannsóknin byggir á þremur eigindlegum hálfopnum viðtölum við reynslumikið fagfólk á vettvangi skóla- og frítíma sem valið var til þátttöku með hentugleikaúrtaki. Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að fagfólk sé meðvitað um áhrifavald leiðtoga á aðra hópmeðlimi og ríkjandi menningu hópa.
Allir viðmælendur höfðu sterkar skoðanir á birtingamynd jákvæðra og neikvæðra leiðtoga. Virðist grundvöllur jákvæðra leiðtogahæfileika liggja í félagshæfni einstaklings. Þau sögðu jákvæða leiðtoga gegna lykilhlutverki í því að skapa jákvæða menningu innan hóps. Þrátt fyrir að fagfólk á vettvangi sé meðvitað um gildi jákvæðra leiðtoga innan hópa virðist vera sem svo að því hafi ekki verið látin í té verkfæri til þess að rækta markvisst upp slíka leiðtogafærni einstaklinga í námi sínu. Mismunandi virðist vera á hvaða hátt og hversu markvisst fagfólk vinnur með einstaklinga innan hóps og hópinn sjálfan sem heild.
Niðurstöður rannsóknarinnar gefa tilefni til þess að skoða og ígrunda áherslur í skipulögðu starfi fyrir börn og ungmenni í ljósi þeirra áhrifa sem menning hóps getur haft á líðan og framtíð einstaklinga innan hans. Jafnframt varpa þær ljósi á hvað betur má fara í undirbúningi og menntun fagfólks til þess að efla starfið enn frekar.
Lykilorð: Börn, fagfólk, félagshæfni, hópar, jákvæðir leiðtogar, jákvæð menning, leiðtogafærni, neikvæðir leiðtogar, samskipti, táknrænn auður, ungmenni.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
2016_03_skemman_yfirlysing_lokaverkefni_29.03.16 copy.pdf | 160,37 kB | Lokaður | Yfirlýsing | ||
BA_lokaverkefni_ALB-og-ÍOK_TÓS261.pdf | 680,16 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |