Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/28562
Markmið rannsóknarinnar er að túlka sjónarmið barna sem dvalið hafa fjarri fjölskyldum sínum og draga fram þá þætti í skólastarfinu sem þau telja að skipti mestu máli fyrir velferð þeirra í grunnskóla. Skoðað verður hvernig tekið var á móti þeim í skólanum, námsframvinda, viðmót starfsfólks og skólafélaga, samskipti við starfsmenn og skólafélaga, hvað mætti gera öðruvísi í dag og lífið eftir grunnskóla. Rannsóknarspurningin er: Hvaða þættir skipta máli fyrir vellíðan barna sem dvelja fjarri fjölskyldu sinni í íslenskum grunnskólum? Hvaða reynslu hafa þau af móttöku, námsframvindu, viðmóti og samskiptum í grunnskóla.
Málefni barna og unglinga hafa verið mér hugleikin um árabil og hef ég komið að þeim bæði sem kennari og stjórnandi í grunnskóla auk þess sem ég rak meðferðarheimili fyrir börn í nokkur ár. Mér finnst mikilvægt að við veitum skólagöngu barna sem dvelja fjarri fjölskyldu sinni meiri gaum, meðal annars innan veggja skólans. Fyrri rannsóknir hafa sýnt að þau upplifa oft erfiða skólagöngu sem hætt er við að marki líf þeirra ævilangt. Carpenter (2015) er einn þeirra sem mikið hefur fjallað um hugtakið lærdómssamfélag. Hann segir að þegar um lærdómssamfélag er að ræða skapist jákvæð skólamenning þar sem áhersla sé lögð á að þróa kennslu og nám með það í huga að tryggja að allir nemendur nái sem bestum árangri. Vert er að huga að því hvort grunnskólinn mæti börnum sem dvelja fjarri fjölskyldu sinni, svo sem fósturbörnum og börnum meðferðarheimili á þessum grunni, taki tillit til þess hvar þau eru stödd í lífinu og að þau fái tækifæri til að blómstra og ná sem bestum árangri.
Um eigindlega viðtalsrannsókn er að ræða þar sem notuð er fyrirbærafræði sem byggir á að rannsakandi leitist við að skoða hlutina út frá sjónarhóli þess sem rætt er við. Sérstaklega verður horft til þess hvort og þá hvernig lærdómssamfélag í skólum hefur haft áhrif á líðan þeirra barna sem ekki eiga þess kosta að vera heima hjá fjölskyldu sinni.
Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að það skiptir þessi börn miklu máli að fá að koma inn í grunnskóla á sömu forsendum og aðrir. Þau fái að stunda nám með öðrum börnum og að þau séu ekki eyrnamerkt með einhverjum hætti. Stærð skóla skiptir þau máli og hefur reynsla þeirra sýnt að mun auðveldara sé fyrir þau að eiga góð samskipti við starfsfólk og nemendur í fámennari skólum.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Lokaskjal 26. maí 2017 2.pdf | 599.06 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna | |
Yfirlýsing um meðferð lokaverkefna.pdf | 318.48 kB | Lokaður | Yfirlýsing |