Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/28598
Í þessu verki er sjónum beint að sex grunnþáttum menntunar sem birtast í nýrri aðalnámskrá 2011, læsi, sjálfbærni, heilbrigði og velferð, lýðræði og mannréttindi, jafnrétti og sköpun. Grunnþættirnir eiga að vera leiðarljós í almennri menntun í leik- grunn- og framhaldsskólum landsins. Markmið þessarar ritgerðar er að tengja grunnþætti menntunar bókmenntum og bókmenntakennslu, þar sem annars vegar eru skoðaðar birtingarmyndir grunnþátta í kennsluáætlunum, viðtölum og vettvangslýsingum og hins vegar í völdum bókmenntum.
Þessi ritgerð byggist á textagreiningu. Farið er yfir aðalnámskrá og skilgreiningar hennar á grunnþáttum menntunar, kennsluáætlanir úr rannsókninni Íslenska sem námsgrein og kennslutunga og valdar bókmenntir sem henta vel til þess að dýpka umræðu um það sem í aðalnámskrá kallast „grunnþættir menntunar“. Íhugað er hvernig ræða má skilning á grunnþáttunum í ljósi einnar námsgreinar, bókmenntanna og tengjast dæmin ekki beinlínis sérstökum skólastigum. Fjallað er um bókmenntir og grunnþætti og grunnþættina í bókmenntum. Ritverk Jóns Gnarr; Indjáninn (2010), Sjóræninginn (2013) og Útlaginn (2015) eru til umfjöllunar og ein aðalpersóna er í aðalhlutverki.
Rannsóknin Íslenska sem námsgrein og kennslutunga er eigindleg og var gagna aflað með viðtölum og vettvangsathugunum. Rannsókninni mun ljúka haustið 2017 og hún er því enn í gangi þegar þetta er ritað en helstu niðurstöður benda til þess að grunnþættir menntunar séu lítt sýnilegir í kennsluáætlunum, viðtölum og vettvangslýsingum. Bókmenntagreining virðist samkvæmt gögnum rannsóknarinnar einnig vera hornreka í skólakerfinu en það er einmitt trú þess höfundar sem þetta ritar að hún geti dugað afar vel til þess að opna umræðu um gildi grunnþátta menntunar.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Yfirlysing.pdf | 224.3 kB | Lokaður | Yfirlýsing | ||
Lokaskjal.pdf | 1.17 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |