is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Félagsvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Félagsvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/28625

Titill: 
  • Clausula cassatoria. Skilyrði fyrir gjaldfellingu eftirstöðva skuldabréfa
Námsstig: 
  • Meistara
Leiðbeinandi: 
Útdráttur: 
  • Gjaldfelling eftirstöðva skuldabréfa er íþyngjandi úrræði sem kröfuhafi getur borið fyrir sig vegna vanefnda skuldara, eða annarra atvika sem varða skuldara. Skilgreining á úrræðinu er ekki einhlít, en tíðkast hefur að skilgreina gjaldfellingu sem samningsbundið vanefndaúrræði vegna þess hversu algengt er að aðilar semji sín á milli um að kröfuhafa sé heimilt að beita því.
    Skuldabréf eru oft gefin út vegna lánasamninga, þar sem skuldari gefur einhliða og óskilyrt loforð um að greiða tiltekna peningaupphæð. Ákvæði um gjaldfellingu eru algeng í samningum vegna stærri peningalána, annaðhvort í lánasamningnum sjálfum eða í skuldabréfinu. Slík ákvæði, sem kallast á latínu clausula cassatoria, eru almennt þess efnis að ef ein afborgunargreiðsla fellur í gjalddaga án þess að vera greidd, sé öll skuldin gjaldfallin án fyrirvara og uppsagnar. Gjaldfelling hefur það því í för með sér að gjalddagi kröfu er færður fram, það er umsamdar afborganir eru felldar úr gildi og skuldara gert að greiða allar eftirstöðvar skuldarinnar í einu, vegna tiltekinnar háttsemi eða atvika sem varða skuldara.
    Efni ritgerðarinnar er þrenns konar. Í fyrsta lagi að gera grein fyrir úrræðinu gjaldfellingu eftirstöðva skuldabréfa með almennum hætti. Í öðru lagi að veita greinargott yfirlit yfir þau skilyrði sem þurfa að vera uppfyllt svo að kröfuhafi geti beitt úrræðinu vegna atvika eða háttsemi sem varðar skuldara. Í þriðja lagi að fjalla með nákvæmum hætti um það hvað felist í skilyrðinu um veruleg vanskil. Vegna eðlis úrræðisins, sem samningsbundins úrræðis, hefur það að mestu leyti komið í hlut dómstóla að móta skilyrðin fyrir beitingu þess, en sett lagaákvæði veita takmarkaðar upplýsingar um það hver skilyrðin eru. Af þeim sökum byggir rannsóknin einkum á því að skoða dómafordæmi og draga ályktanir af þeim, ásamt því að gera grein fyrir meginreglum laga og skoðunum fræðimanna. Leiddar eru sterkar líkur að því að grundvallarskilyrði gjaldfellingar sé að heimild þurfi að vera í lögum eða samningi svo að unnt sé að beita úrræðinu. Að sama skapi eru sterkar líkur leiddar að því að efnislegt innihald hinnar formlegu heimildar fyrir beitingu úrræðisins verði að hafa að geyma þær ástæður sem heimila kröfuhafa að gjaldfella eftirstöðvar skuldabréfs, það er gjaldfellingarástæður. Af öðrum grundvallarskilyrðum gjaldfellingar má nefna að vegna eðlis úrræðisins, um að gjaldfella eftirstöðvar skuldabréfs, er skilyrði að skuld samkvæmt skuldabréfi skuli greiða með fleiri en einni afborgun. Ef um eingreiðslu er að ræða eru engar eftirstöðvar til þess að gjaldfella. Að lokum má nefna að grundvallarskilyrði þess að kröfuhafi geti gjaldfellt vegna vanskila, en það er ein algengasta gjaldfellingarástæðan, er sú að greiðsludráttur skuldara sé verulegur.

Samþykkt: 
  • 5.7.2017
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/28625


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Clausula cassatoria.pdf1.02 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna
Skemman - Yfirlýsing.pdf114.97 kBLokaðurYfirlýsingPDF