is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > B.S. verkefni - Heilbrigðisvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/28718

Titill: 
  • Tepptur framgangur hjá eldri frumbyrjum og áhrif þess á tíðni keisaraskurða
Námsstig: 
  • Bakkalár
Útdráttur: 
  • Inngangur: Síðustu áratugi hefur meðalaldur frumbyrja á Vesturlöndum farið hækkandi. Rannsóknir hafa sýnt að tíðni keisaraskurða eykst með aldri þrátt fyrir að leiðrétt hafi verið fyrir meðgöngukvillum og fleiri þáttum sem gætu haft sjálfstæð áhrif á tíðnina. Það er þó ekki vitað hvað það er sem skýrir þetta. Talið er að það sé sambland af öðruvísi meðferð eldri mæðra í mæðravernd og í fæðingu svo og líkamlegum þáttum hjá þeim. Rannsóknir hafa einnig sýnt að tepptur framgangur fæðingar sé algengari hjá eldri mæðrum; það er að útvíkkun leghálsins stöðvist og/eða fyrirsætur fósturhluti gangi ekki niður í grind. Því hefur oft verið nefnt að hærri keisaraskurðartíðni eldri mæðra megi rekja til minni virkni legvöðvans með aldri og að aukna tíðni teppts framgangs megi rekja til þess. Rannsókn þessi miðaðist að því að fá yfirsýn yfir tíðni keisaraskurða og greiningarinnar “tepptur framgangur” hér á landi. Leitast var við að skoða hvort aukna tíðni keisaraskurða hjá eldri mæðrum megi rekja til þess að þær greinist oftar með tepptan framgang eða hvort aðrar ábendingar skipti meira máli.
    Efni og aðferðir: Rannsóknin var afturskyggn og náði yfir allar frumbyrjur sem gengu fulla meðgöngu og fæddu lifandi einbura árin 1997-2015. Upplýsingar um móður, meðgöngu og fæðingu fengust úr Fæðingaskrá Landlæknis. Skoðað var keisaraskurðartíðni og tíðni teppts framgangs eftir aldri. Reiknað var hlutfall keisaraskurða vegna þriggja ábendinga. Þær voru tepptur framgangur, fósturstreita og misheppnuð framköllun fæðingar. Lógistísk aðhvarfsgreining var notuð til þess að meta áhrif teppts framgangs á keisaraskurðartíðni eftir aldurshópum.
    Niðurstöður: Hlutfallslega voru keisaraskurðir vegna teppts framgangs færri hjá konum 40 ára og eldri en konum 20-29 ára (49,2% á móti 63,7%, p=0,019). Hins vegar voru keisaraskurðir vegna fósturstreitu hlutfallslega fleiri hjá konum 40 ára og eldri en hjá konum 20-29 ára (39,7% á móti 22,1%, p=0,006). Árin 1997-2015 minnkuðu líkur þess að lenda í keisaraskurði vegna teppts framgangs með aldri. Konur 20-29 ára með tepptan framgang voru 12,1 sinnum líklegri til að fæða með keisaraskurði en konur á sama aldri sem ekki greindust með tepptan framgang (GLH: 12,1, ÖB:10,8-13,6) en konur 40 ára og eldri 5,8 sinnum líklegri ef þær greindust með tepptan framgang (GLH: 5,8, ÖB: 6,3-9,2). Þegar leiðrétt hafði verið fyrir öllum blöndunarþáttum jukust þó líkurnar hjá konum 40 ára og eldri og þær urðu 15 sinnum líklegri til að lenda í keisaraskurði ef þær lentu í tepptum framgangi (GLH: 15,0, ÖB: 5,6-45,7). Sá blöndunarþáttur sem hafði mest áhrif var fæðingarár barns. Kom í ljós að konur 40 ára og eldri voru fjórum sinnum líklegri til að fæða með keisaraskurði ef þær greindust með tepptan framgang árin 1997-2006 (GLH: 16,3, ÖB: 4,5-70,9) en árin 2007-2015 (GLH: 3,6, ÖB: 3,4-36,3).
    Ályktun: Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að ekki megi rekja aukna tíðni keisaraskurða hjá eldri mæðrum til þess að þær lendi oftar í tepptum framgangi. Hins vegar má rekja fleiri keisaraskurði hjá eldri mæðrum til fósturstreitu. Enn fremur benda niðurstöðurnar til að hlutur keisaraskurða vegna teppts framgangs hafi breyst á rannsóknartímabilinu. Það er því líklegt að eldri mæður fái öðruvísi meðhöndlun í heilbrigðiskerfinu en þær yngri, þröskuldur fyrir því að fara í keisaraskurð vegna fósturstreitu sé lægri og/eða fósturstreita algengari og viðhorf til þeirra hafi breyst á síðastliðnum árum.

Samþykkt: 
  • 25.8.2017
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/28718


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
HelgaMH-Teppturframg.pdf1.34 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna
yfirlýsing.pdf28.23 kBLokaðurYfirlýsingPDF