Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/28726
Áhrif loftslagsbreytinga eru ótvíræð. Greina má áhrifin hvarvetna í heiminum en losun gróðurhúsalofttegunda út í andrúmsloftið hefur aldrei mælst meiri en um þessar mundir. Tölur sýna að rekja megi um helming auðlindanýtingar og allt að 30-40% orkunotkunar og útblásturs til byggingariðnaðarins, sem gerir hann að þeim iðnaði sem losar mest af gróðurhúsalofttegundum á heimsvísu. Sjálfbær þróun í byggingariðnaðinum er ein af stóru áskorunum samtímans og getur falið í sér margskonar ávinning fyrir menn og umhverfi. Til að svara þessari þörf hefur þróun og notkun svokallaðra vistvottunarkerfa færst í aukana. Vistvottunarkerfi fyrir byggingar og skipulag eru matstæki sem stuðla að því að markmið um sjálfbæra þróun náist við byggingarframkvæmdir.
Viðfangsefni þessarar rannsóknar er breska vistvottunarkerfið BREEAM. BREEAM er fyrsta vistvottunarkerfið fyrir byggingar og skipulag sem tekið var í notkun á Íslandi. Markmið rannsóknarinnar er tvíþætt. Annars vegar að útskýra uppbyggingu og eiginleika BREEAM. Hins vegar að varpa ljósi á aðlögun kerfisins að íslenskum aðstæðum, sem er gert með því að framkvæma tilviksrannsókn á íslenskum byggingariðnaði. Meginmarkmið tilviksrannsóknarinnar er að draga fram álit og reynslu fagaðila í byggingariðnaðinum hvað varðar innleiðingu BREEAM á Íslandi. Einnig að greina hvaða hindranir og hvatar eru í byggingariðnaðinum hérlendis með tilliti til þeirra krafna sem settar eru fram í BREEAM.
Rannsóknin byggir á eigindlegri aðferðafræði. Rannsóknargagna er aflað með hálf-stöðluðum viðtölum við fimm fagaðila sem starfa innan byggingariðnaðarins á Íslandi og hafa komið að BREEAM vottuðum verkefnum hérlendis. Tólf meginþemu voru greind með innihaldsgreiningu. Þemun eru: persónuleg reynsla af BREEAM, hvatar fyrir aðlögun BREEAM á Íslandi, hindranir fyrir aðlögun BREEAM á Íslandi, hönnun og ákvarðanataka, félagsleg áhrif BREEAM, vottun, fræðsla og miðlun, þverfræðilegt samtal, umhverfisáhrifaflokkar og tæknileg atriði, virði BREEAM, íslensk útgáfa af BREEAM og umbætur og frekari aðlögun BREEAM að íslenskum aðstæðum. Í umræðukafla rannsóknar er stuðst við þemagreininguna til að svara rannsóknarspurningum. Þá eru svörin við rannsóknarspurningunum einnig borin saman við niðurstöður þeirra erlendu rannsókna sem gert var grein fyrir í fræðilega hluta rannsóknar.
Niðurstöður rannsóknarinnar varpa ljósi á innleiðingu og notkun BREEAM á Íslandi og áhrif kerfisins á fagfólk innan byggingariðnaðarins. Þær gefa vísbendingar um það hvernig BREEAM hentar íslenskum aðstæðum og hvort aðlaga þurfi kerfið betur að hérlendum aðstæðum. Einnig gefa niðurstöðurnar innsýn í þær hindranir og hvata sem fyrirfinnast í íslenskum byggingariðnaði hvað varðar þær kröfur sem gerðar eru í BREEAM. Þannig stuðlar rannsóknin að þekkingarsköpun og umræðu varðandi sjálfbærar aðferðir innan byggingariðnaðarins á Íslandi og gefur vísbendingar um það hvar þurfi að gera betur varðandi umhverfismál í byggingariðnaðinum almennt. Það skortir rannsóknir á vistvottunarkerfum og notkun þeirra á Íslandi. Fræðilegt gildi rannsóknarinnar er að þróa tillögur til frekari athugana/rannsókna á viðfangsefninu.
Lykilorð: BREEAM, umhverfisvottun, aðlögun, sjálfbær þróun, loftslagsbreytingar, samfélagsábyrgð, byggingariðnaður, græn bygging, sjálfbær bygging
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
BREEAM_Olga Árnadóttir.pdf | 1,78 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna | |
Yfirlýsing um meðferð verkefnis_Olga Árnadóttir.pdf | 447,35 kB | Lokaður | Yfirlýsing |