is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > B.S. verkefni - Heilbrigðisvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/28784

Titill: 
  • Blæðingar frá meltingarvegi tengdar blóðflöguhemjandi meðferð eftir kransæðavíkkun. 2008-2016
Námsstig: 
  • Bakkalár
Útdráttur: 
  • Inngangur: Eftirmeðferð kransæðavíkkunar er tvíþátta blóðflöguhemjandi lyfjameðferð sem samanstendur af aspiríni og ADP viðtaka hamlara. Sumir sjúklingar þurfa jafnframt á fullri blóðþynningu að halda með warfaríni eða nýjum blóðþynningarlyfjum (DOAC). Rannsóknir sýna að 2% fái bráða blæðingu frá meltingarvegi eftir kransæðavíkkun. PPI lyf (prótónupumpuhemlar) minnka áhættu á blæðingu frá efri hluta meltingarvegar. Markmið þessarar rannsóknar var að skoða algengi blæðinga frá meltingarvegi hjá sjúklingum sem hafa fengið blóðflöguhemjandi og blóðþynnandi lyfjameðferð ásamt áhrifum mismunandi lyfjasamsetningar. Einnig að kanna hversu marga sjúklinga þarf að meðhöndla með blóðflöguhemjandi og blóðþynnandi lyfjum til að framkalla eina meltingarvegablæðingu.
    Efniviður og aðferðir: Rannsóknin var afturskyggn og náði til allra sjúklinga sem gengust undir kransæðavíkkun á árunum 2008-2016. Upplýsingar um sjúklinga sem gengust undir kransæðavíkkun voru sóttar í gagnagrunn hjartaþræðingarstofu Landspítala. Lyfjameðferð þeirra var sótt í lyfjagagnagrunn Landlæknis. Ofangreind gögn voru samkeyrð við tölvugagnagrunn Landspítala í gegnum aðgerðarkóða fyrir speglanir ásamt ICD-10 greiningarkóðum til að fá fram upplýsingar um þá sem fengu bráða blæðingu frá meltingarvegi 12 mánuðum eftir kransæðavíkkun. Að lokum var safnað klínískum upplýsingum um þá sem fengu bráða blæðingu frá meltingarvegi í Sögukerfi Landspítala.
    Niðurstöður: Á rannsóknartímabilinu gengust alls 5166 sjúklingar undir kransæðavíkkun, meðalaldur 65 (± 11) ár, karlar 75%. Af þeim sem gengust undir kransæðavíkkun voru 54 sem fengu bráða blæðingu frá meltingarvegi 12 mánuðum eftir víkkun eða 1,1% (54/5166). Blæðingar frá efri hluta meltingarvegar voru 56% (n=30) en 44% (n=24) frá neðri hluta. Algengasta orsök blæðinga frá efri hluta meltingarvegar var magasár, 47% (n=14) tilfella og 37% (n=11) sjúklinga voru með H.pylori við magaspeglun. Orsök blæðinga frá neðri hluta meltingarvegar var í flestum tilfellum blæðingar frá ristilpokum, 29% (n=7) tilfella. Meðalaldur þeirra sem fengu bráða blæðingu frá meltingarvegi var 69 (± 9) ár samanborið við 65 (± 11) ár sem ekki fengu blæðingu (p=0,002). Alls voru 22 sjúklingar eða 41% á PPI lyfjum eftir kransæðavíkkun sem fengu bráða blæðingu frá meltingarvegi samanborið við 39% sem fengu ekki blæðingu. Tíðni bráðra blæðinga á einfaldri blóðflöguhemjandi lyfjameðferð ásamt blóðþynningu var algengari en á einfaldri meðferð eingöngu (p=0,028). Sjúklinga sem þarf að meðhöndla með einfaldri blóðflöguhemjandi meðferð ásamt blóðþynningu miðað við einfalda blóðflöguhemjandi meðferð til að framkalla eina meltingarvegablæðingu var 62.
    Ályktanir: Einungis 1,1% af sjúklingum fá bráða blæðingu frá meltingarvegi eftir kransæðavíkkun sem er minna en í sambærilegri erlendri rannsókn. Bráðar blæðingar frá efri hluta meltingarvegar voru algengari en frá neðri hluta meltingarvegar ólíkt erlendum uppgjörum. Aukin blæðingarhætta virðist vera hjá þeim sem eru á einfaldri blóðflöguhemjandi meðferð ásamt fullri blóðþynningu með warfaríni eða DOAC.

Samþykkt: 
  • 4.9.2017
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/28784


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
BS_Asdis_Sveinsdottir.pdf1.14 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna
lokaverkefni_yfirlysing_AsdisSveinsdottir.pdf1.02 MBLokaðurYfirlýsingPDF