Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/28793
Í upphafi vetrar árið 2016 kvað Kjararáð upp úrskurð sem fól í sér umtalsverða hækkun þingfararkaups og olli fjaðrafoki um stund í samfélaginu svo sem mátti greina af fjölmiðlum. Hækkun þessi hafði áhrif á þóknanir sveitarstjórnarmanna því samkvæmt reglum ýmissa sveitarfélaga er þóknunin tiltekið hlutfall af þingfararkaupi sem hver sveitarstjórn ákveður.
Varð það kveikurinn að efnistökum ritgerðarinnar og var lagt upp með þær spurningar hvaða reglur gilda um þóknanir sveitarstjórnarmanna og hvort starfsumhverfi sveitarstjórnarmanna sé í líkingu við það sem almennt tíðkast í tengslum við önnur starfskjaratengd réttindi en laun, svo sem fæðingarorlof. Til grundvallar lágu ákvæði 32. og 33. gr. sveitarstjórnarlaga.
Skoðuð voru ákvæðin um þóknun og önnur starfskjör í frumvörpum þeim sem orðið hafa að sveitarstjórnarlögum. Jafnframt var aflað tiltekinna gagna sem varpa ljósi á starfskjör sveitarstjórnarmanna, þ.e. kjarakannana Sambands íslenskra sveitarfélaga sem gerðar eru á tveggja ára fresti og viðmiðunartöflu Sambands íslenskra sveitarfélaga sem send var öllum sveitarstjórnum sumarið 2016, en til grundvallar henni lágu grunnlaun kjörinna fulltrúa í Reykjavíkurborg miðað við 1. júní 2016. Þá var aflað reglna alls 66 sveitarfélaga af 74 um þóknanir og önnur starfskjör sveitarstjórnarmanna.
Helstu niðurstöður eru þær að í öllum sveitarfélögunum sem svöruðu fá sveitarstjórnarmenn greidda þóknun og í ríflega helmingi þeirra er þóknun ákveðin sem hlutfall af þingfararkaupi, eða í 36 sveitarfélögum. Í 13 sveitarfélögum er þóknun ákveðin með hliðsjón af kjarasamningum. Í 38 sveitarfélögum er kveðið á um greiðslu einhvers konar ferða- og dvalarkostnaðar eða bifreiðastyrks. Virðist sem heimildarákvæðin í sveitarstjórnarlögunum til að ákveða reglur um starfskjaratengd réttindi eins og fæðingarorlof, biðlaun og lífeyrissjóði, leiði til þess að minna sé kveðið á um slíkt í reglunum. Ekki var unnt að greina að brotið væri á rétti sveitarstjórnarmanna til starfskjaratengdra réttinda heldur aðeins að ekki væri kveðið á um slíkt í reglunum, enda hefur ekki reynt á ákvæði 32. eða 33. gr. sveitarstjórnarlaga í framkvæmd. Í ljós kom að reglur sveitarfélaganna um þóknanir eru afar misjafnar bæði að formi og efni til. Talið er vænlegt að breyta sveitarstjórnarlögum í þá átt að gera sveitarstjórnum skylt að setja formfastari reglur um ýmis starfskjaratengd atriði, svo sem greiðslur lágmarkshlutfalls í lífeyrissjóð, í því skyni að auka gagnsæi og jafnræði.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Meistararitgerð MS.pdf | 1,03 MB | Lokaður til...05.09.2067 | Heildartexti | ||
Yfirlýsing um meðferð lokaverkefna sem varðveitt eru á LÍH.pdf | 282,56 kB | Lokaður | Yfirlýsing |