is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Félagsvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Félagsvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/28829

Titill: 
 • Markaðsmisnotkun í ljósi nýlegrar dómaframkvæmdar
Námsstig: 
 • Meistara
Útdráttur: 
 • Í aðdraganda bankahrunsins átti sér stað ör vöxtur innan fjármálakerfisins sem helst mátti rekja til aðgangs að alþjóðlegum fjármálamörkuðum, þá sérstaklega meðal viðskiptabankanna þriggja. Við fall bankanna haustið 2008 beindust spjótin meðal annars að meintri markaðsmisnotkun í starfsemi þeirra. Markaðsmisnotkun felur í sér ógnun gegn þeim grundvallaratriðum sem fjármálamarkaðurinn byggir á og hefur slík ólögmæt íhlutun neikvæð áhrif á markaðinn.
  Meginmarkmið ritgerðarinnar er að varpa ljósi á nýlega dómaframkvæmd á sviði markaðsmisnotkunar og hvernig íslenskir dómstólar túlka ákvæði 117. gr. verðbréfaviðskiptalaga nr. 108/2007. Þá er jafnframt litið til þeirra forsendna sem dómstólar leggja til grundvallar við sakfellingu og á hverju sakborningar byggja varnir sínar.
  Í upphafi ritgerðarinnar er lýst inntaki markaðsmisnotkunarákvæðisins og helstu tegundum. Þá er mikilvægt að skýra ákvæðið en sakborningar í hinum svokölluðu „hrunmálum“ töldu ákvæðið að mörgu leyti óskýrt, enda dómaframkvæmdin mjög takmörkuð framan af, en fyrsti Hæstaréttardómurinn féll ekki fyrr en árið 2010. Löggjöf á sviði fjármálamarkaðsréttar má að mestu leyti rekja til Evrópuréttar og regluverks Evrópusambandins. Þá hefur eftirlit með fjármálamörkuðum jafnframt verið gagnrýnt, meðal annars vegna afskiptaleysis stjórnvalda og viðeigandi eftirlitsstjórnvalda. Grípa hefði þurft fyrr til aðgerða til að koma í veg fyrir fall bankanna.
  Til að varpa ljósi á dómaframkvæmdina á þessu réttarsviði voru raktir þeir dómar sem fallið hafa og varða markaðsmisnotkun, með tilliti til málsatvika, ákæru, varna og að lokum niðurstöðu bæði héraðsdóms og Hæstaréttar. Alls hafa fallið sex Hæstaréttardómar vegna brots á banni við markaðsmisnotkun, en þeir varða allir nema einn meinta refsiverða háttsemi sem átti sér stað innan viðskiptabankanna þriggja í aðdraganda hrunsins.
  Hæstiréttur hefur túlkað ákvæði 117. gr. verðbréfaviðskiptalaga fremur rúmt. Þá hefur sakarmat í Hæstarétti í þessum málum verið nokkuð strangt en dómurinn hefur að jafnaði dæmt ofarlega í refsirammanum. Þá hefur Hæstiréttur talið að brotin hafi verið kerfisbundin, þaulskipulögð og haft þann tilgang að hækka gengi bréfanna, styðja síðan við það og að lokum tefja fyrir falli þess. Þá hafa refsingar hér á landi verið nokkuð þyngri en á öðrum Norðurlöndum en svo virðist sem dómstólar þar hafi ekki tekið jafn strangt á þessum málum. Hæstiréttur hefur sent skýr skilaboð út í samfélagið, að efnahagsbrot líkt og markaðsmisnotkun verði litin alvarlegum augum, og að búast megi við þungum refsingum vegna brots á ákvæði 117. gr. verðbréfaviðskiptalaga.

Samþykkt: 
 • 5.9.2017
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/28829


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Markaðsmisnotkun í ljósi nýlegrar dómaframkvæmdar.pdf960.33 kBLokaður til...01.01.2100HeildartextiPDF
Yfirlýsing_Rannveig Ólafsdóttir.pdf906.2 kBLokaðurYfirlýsingPDF