is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Hugvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Hugvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/28847

Titill: 
  • Titill er á ensku Frá saltfiski til sólarferða Stjórnmála- og viðskiptatengsl Íslands og Spánar 1939–1959
Námsstig: 
  • Meistara
Leiðbeinandi: 
Útdráttur: 
  • Ritgerðin fjallar um stjórnmála- og viðskiptasamband Íslands og Spánar á tímabilinu 1939–1959. Nær engin viðskipti voru á milli landanna allan 5. áratug 20. aldar, en íslensk útgerðarfyrirtæki misstu ekki áhuga á spænska markaðnum og þrýstu á stjórnvöld að koma á viðskiptasambandi við Spán. Spánverjar vildu þó ekki eiga viðskipti við Ísland fyrr en Íslendingar sýndu þeim stuðning á alþjóðavettvangi í verki. Á þessum tíma hafði afstaða íslenskra stjórnmálaflokka til Spánar tekið verulegum breytingum. Sjálfstæðisflokkurinn hafði varið Francisco Franco í spænsku borgarastyrjöldinni, og þótt hann léti af beinum stuðningi við stjórn hans í lok síðari heimsstyrjaldar lagði hann áherslu á að eðlileg viðskiptasamskipti yrðu tekin upp við Spán. Á sama hátt tóku Alþýðuflokksmenn og Framsóknarmenn Franco í sátt vegna viðskiptahagsmuna. Að lokum voru það einungis kommúnistar sem héldu uppi virkri gagnrýni á spænsku einræðisstjórnina.
    Hér verða rök færð fyrir því að áhrif útgerðarfélaganna hafi haft úrslitaáhrif á þá ákvörðun stjórnvalda að láta undan kröfum Spánverja. Ráðamenn gerðu sér far um að gæta hagsmuna útgerðarinnar, enda voru pólitísk og persónuleg tengsl þeirra við útgerðarmenn sterk. Gagnrýni af hálfu vinaþjóða Íslands vegna stuðningsins við Spán kom þeim í opna skjöldu og olli miklum áhyggjum í utanríkisþjónustunni. Hins vegar stóðu stjórnvöld við stefnu sína. Hér verða rök færð fyrir því að ákvörðun Íslands sé dæmi um hvernig raunhyggja (e. realism) hefur áhrif á ákvarðanatöku ríkja. Ráðamenn hafi ekki hagað sér eins og fulltrúar smáríkja geri venjulega undir sambærilegum kringumstæðum. Í stað þess að fylgja helstu bandalags- og viðskiptaþjóðum sínum í Spánarmálinu hafi þeir gengið gegn hagsmunum þeirra á vettvangi Sameinuðu þjóðanna til að styðja við bakið á áhrifamiklum aðilum í íslenskum sjávarútvegi.
    Nýr viðskiptasamningur var gerður milli Íslands og Spánar í upphafi 6. áratugarins á grundvelli vöruskipta. Sýnt verður fram á hvernig stjórnvöld drógu þar taum útgerðarfyrirtækjanna, hvöttu bæði innflytjendur og almenning að kaupa sem mest af spænskum vörum til að efla útflutning sjávarafurða, jafnvel þótt spænskar vörur þættu dýrar og af litlum gæðum. Tregða íslensks almennings til að kaupa spænskar vörur leiddi þó til þess að eðli samskiptanna breyttist smám saman á seinni hluta 6. áratugarins með aukinni ferðamennsku til Spánar. Þó að innflutningur frá Spáni hafi vaxið jafnt og þétt tók útflutningur þangað aldrei við sér. Þannig skiptu ríkin um hlutverk frá því sem áður var: Viðskiptasamband Íslands og Spánar hafði verið langt og ábatasamt fyrir íslenska útgerðarmenn fram að borgarastríðinu, en eftir síðari heimsstyrjöld reyndist vöruskiptasamningurinn Spánverjum mun hagstæðari en Íslendingum.

Samþykkt: 
  • 5.9.2017
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/28847


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Frá saltfiski til sólarferða.pdf892.8 kBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna
StSv_2017-09-05_11-08-57.pdf41.92 kBLokaðurYfirlýsingPDF