is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Félagsvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Félagsvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/28861

Titill: 
 • „Gagnsamleg íhlutun almennings“ Þjóðaratkvæðagreiðslur og réttaráhrif þeirra á lýðræðislega stjórnarhætti
Námsstig: 
 • Meistara
Leiðbeinandi: 
Útdráttur: 
 • Markmið ritgerðar þessarar er að fjalla með skipulegum hætti um þjóðaratkvæðagreiðslur í íslenskri stjórnskipun og gera grein fyrir þeim réttarreglum sem um þjóðaratkvæðagreiðslur gilda. Líkt og hefð er fyrir, þegar fjallað er um einstaka hluta íslensks réttar, verður enn fremur gerð grein fyrir réttarreglum í stjórnskipunarrétti Norðurlanda, auk þess sem fjallað verður um réttarframkvæmd í þýskum, enskum og svissneskum rétti. Þess ber þó að geta að þessi ritgerð felur ekki í sér samanburðarrannsókn, heldur er tilgangur með umfjöllun um rétt annarra þjóða einungis sá að varpa ljósi á ríkjandi hefðir og sjónarmið, einkum meðal þeirra landa sem venja er að horfa til hér á landi þegar gerð er grein fyrir íslenskum rétti.
  Efni ritgerðarinnar er sett fram þannig að í 2. kafla er fjallað um hugtakið þjóðaratkvæðagreiðsla, einstök efnisatriði þess, rök að baki þjóðaratkvæðagreiðslum og ástæður fyrir notkun þeirra. Þá er enn fremur fjallað um hugmyndafræðilegar og stjórnskipulegar röksemdir að baki þjóðaratkvæðagreiðslum og þær kenningar sem settar hafa verið fram. Í 3. kafla er fjallað um þjóðaratkvæðagreiðslur á Íslandi fyrir lýðveldisstofnun. Í 4. kafla er fjallað um þjóðaratkvæðagreiðslur samkvæmt fyrirmælum í stjórnar¬skrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, hér eftir stjskr., en þriggja tilvika er getið í stjórnarskránni þar sem skylt er að boða til þjóðaratkvæðagreiðslu. Í 5. kafla er fjallað um ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslur. Fjallað er um gagnsemi þeirra og pólitískt skuldbindingargildi. Þá verður í 6. kafla fjallað um þjóðaratkvæðagreiðslur í dönskum, norskum, sænskum, finnskum, enskum, þýskum og svissneskum stjórnskipunarrétti. Í 7. kafla er umfjöllun um þjóðaratkvæðagreiðslur hér á landi á lýðveldistímanum og vinnu við breytingar á stjórnarskránni. Í 8. kafla er fjallað um nokkur álitamál við tilhögun þjóðaratkvæðagreiðslna. Að síðustu eru niðurstöður teknar saman í 9. kafla.
  Í ritgerðinni er tekið til nánari skoðunar hvernig þjóðaratkvæðagreiðslur samrýmast fulltrúalýðræðinu sem er eitt helsta einkenni íslenskrar stjórnskipunar. Skoðað verður hvaða þýðingu þjóðaratkvæðagreiðslur hafa og hvort um undantekningu frá fulltrúalýðræðinu geti verið að ræða, sem verði í framtíðinni nýtt í ríkari mæli en áður. Beint lýðræði er birtingarmynd sjálfsákvörðunarréttar þjóðarinnar, þar sem þjóðin tekur beina og milliliðalausa afstöðu til tiltekinna mála, m.a. um stjórnarskrárbreytingar, þrátt fyrir að þjóðfélagslegar ákvarðanir, svo sem setning almennra laga, séu teknar á grundvelli fulltrúalýðræðis. Þá verða skilyrði þjóðaratkvæðagreiðslu skoðuð, hvort kosningaþátttaka og afl atkvæða skipti máli fyrir áhrif niðurstöðunnar. Enn fremur eru teknar til skoðunar þjóðaratkvæðagreiðslur varðandi þjóðréttarsamninga, áhrif ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslna, þjóðaratkvæðagreiðslur um stjórnarskrárbreytingar og hvort breyta skuli svigrúmi forseta við beitingu á 26. gr. stjskr.
  Í stjórnarskipunarlögum flestra lýðræðisríkja er kveðið á um þjóðaratkvæðagreiðslur, þótt efni þeirra sé mismunandi, ólíkum skilyrðum þurfi að fullnægja til að af slíkum atkvæðagreiðslum geti orðið og við hvaða aðstæður þær skuli fara fram. Auk þessa er mismunandi hver getur haft frumkvæði að því að efnt verði til þjóðaratkvæðagreiðslu – oftast er mælt fyrir um slíkt í stjórnarskránni sjálfri og þá hvort þingmönnum eða kjósendum sé veittur réttur til að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu um tiltekin mál.
  Áhrif þjóðaratkvæðagreiðslna geta verið mismunandi eftir tegundum þeirra. Þjóðaratkvæðagreiðslur samkvæmt fyrirmælum stjórnarskrárinnar eru lagalega bindandi en það á ekki við um ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslur. Eðli atkvæðagreiðslnanna er ólíkt og geta ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslur haft mismunandi pólitískt vægi. Þá geta farið fram atkvæðagreiðslur í sveitarfélögum, sem byggja á svipuðum sjónarmiðum og þjóðaratkvæðagreiðslur. Kveðið er á um slíkar atkvæðagreiðslur í 107.-108. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011. Helstu niðurstöður rannsóknarinnar eru að þjóðaratkvæðagreiðslur geta verið lýðræðisskipulaginu til styrktar sem og ákveðið samspil milli löggjafans og þjóðarinnar í ákvarðanatöku um grundvallarspurningar. Í því sambandi þarf þó að gæta vel að framkvæmdinni. Aukinn fjöldi þjóðaratkvæðagreiðslna hefur ekki endilega þau áhrif að auka áhuga kjósenda á þjóðaratkvæðagreiðslum. En ljóst er að krafa um meiri aðkomu þjóðarinnar er háværari en áður. Á sama tíma verður að stíga varlega til jarðar og gæta þess að þjóðaratkvæðagreiðslurnar komi fulltrúalýðræðinu til fyllingar en grafi ekki undan stöðu Alþingis sem samkomu kjörinna fulltrúa þjóðarinnar og æðstu stofnunar stjórnskipulagsins. Ekki er ástæða til að óttast aðkomu þjóðarinnar að málum svo lengi sem það er vel gert og þess freistað að ná um það góðri samstöðu.

Samþykkt: 
 • 5.9.2017
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/28861


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Meistararitgerð í lögfræði.pdf1.17 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna
Yfirlýsing um meðferð lokaverkefna.pdf274.33 kBLokaðurYfirlýsingPDF
Forsíða.pdf242.79 kBOpinnForsíðaPDFSkoða/Opna