Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/28930
Viðfangsefni þessarar ritgerðar er ofbeldi gegn fötluðum konum og afleiðingar ofbeldisins á líf þeirra. Ritgerðin er byggð á niðurstöðum úr eigindlegri viðtalsrannsókn við níu fatlaðar konur sem voru með mismunandi skerðingar. Markmið rannsóknarinnar var tvíþætt. Í fyrsta lagi að afla þekkingar á ofbeldi gegn fötluðum konum og birtingar-myndum þess í lífi kvennanna og að kanna hvaða afleiðingar ofbeldið hefði á líðan þeirra og daglegar athafnir. Í öðru lagi var markmiðið með rannsókninni að kanna hvaða stuðningsúrræði væru fyrir hendi fyrir þolendur ofbeldis og hvernig þau reyndust fötluðum konum. Niðurstöður gefa til kynna að birtingarmyndir ofbeldis séu margbreytilegar. Ofbeldið sem konurnar voru beittar var meðal annars einelti, líkamlegt, andlegt, kynferðislegt ofbeldi, og áreitni af ýmsum toga. Stofnanabundið ofbeldi var jafnframt algengt. Afleiðingar ofbeldisins birtust með mismunandi hætti en allar áttu konurnar það sammerkt að afleiðingar ofbeldisins hafði varanleg og víðtæk áhrif á líðan þeirra og daglegt líf. Það var ekki síst ótti og öryggisleysi við fjölmargar aðstæður sem einkum hafði áhrif og leiddi til skertrar samfélagsþátttöku. Konunum fannst þær vera jaðarsettar, valdalausar og háðar öðrum, hræddar og óöruggar í sínu daglega lífi og umhverfi. Nokkur af þeim almennu stuðningsúrræðum sem eru fyrir hendi, eru einnig ætluð fötluðum konum. Engin kvennanna í rannsókninni hafði leitað eftir slíkum stuðningsúrræðum. Ástæðan var vanþekking á þessum úrræðum eða að þær töldu að úrræðin hentuðu þeim ekki. Niðurstöður rannsóknarinnar eru sambærilegar öðrum íslenskum og erlendum rannsóknum á ofbeldi gagnvart fötluðum konum.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Lokaskjal.pdf | 1.06 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna | |
yfirlysing opinn aðgangur.pdf | 551.74 kB | Lokaður | Yfirlýsing |