Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/28943
Ritgerðin fjallar um hugmyndir um hamingju eins og þær birtast í stelpu-kvikmyndum (e. chick flicks). Titilinn, Ó, hamingja! gefur til kynna þrá okkar til þess að öðlast hamingju sem getur stundum snúist upp í andhverfu sína. Sjónum er beint að klisjukenndum rómantískum kvikmyndum, sem komu út undir lok síðustu aldar og á fyrsta áratugi þessarar, með áherslu á hamingju kvenna á vinnumarkaði. Tekin er dæmi úr fjórum vinsælum rómantískum gamanmyndum sem fjalla um konur á vinnumarkaði og þær settar í samhengi við rannsóknir um raunverulega stöðu kvenna á vinnumarkaði. Hamingjuheimspeki kvikmyndanna verður tengd við staðsetningarkenningar þekkingarfræðinnar sem tengir saman samfélagslega- og þekkingarfræðilega stöðu einstaklings eða hóps og færir rök fyrir því að félagsstaða og kyn skipti máli þegar þekking er skoðuð. Kvikmyndirnar eru greindar út frá þeim kenningum til þess að skoða frá hvaða samfélagshópum hugmyndir um hamingju kvenna í þessum myndum koma. Því eru kvikmyndirnar skoðaðar út frá stöðu aðalpersónanna, kyni leikstjóra og handritshöfunda.
Hugmyndir fólks um hamingjuna hafa ævinlega verið margskonar en engu að síður hefur flestum fundist hamingja vera það sem við sækjumst eftir í lífi okkar. Hér er hið sígilda ævintýristef hamingjusöm-til-æviloka skoðað sérstaklega. Rómantísk hamingja er útgangspunktur hamingju í þessum myndum og er gjarnan lausnin að vandamálum kvennanna sem í aðalhlutverkum eru. Niðurstaðan er sú að í raunveruleikanum, eins og í kvikmyndunum, þurfa konur á vinnumarkaði að berjast meira fyrir sínu og starfsframi hefur oft neikvæð áhrif á einkalíf þeirra. Rannsóknir sem stuðst er við sýna að ólíkt þeim hugmyndum sem birtast í kvikmyndunum virðist lausnin í raunveruleikanum ekki vera að finna sér maka, heldur frekar að álag á vinnumarkaði hafi áhrif á sambönd. Höfundur kemst að þeirri niðurstöðu að hamingjan sé ekki einungis fólgin í rómantískri ást. Hamingjan er samspil fleiri þátta. Það að auki er hún bæði einstaklings- og samfélagsbundin.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Unnur Flóvenz_lokaritgerð.pdf | 504,69 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna | |
Skemman_yfirlysing_16 (1).pdf | 24,5 kB | Lokaður | Yfirlýsing |