Please use this identifier to cite or link to this item: https://hdl.handle.net/1946/28963
Megintilgangur reikningsskila er að veita fjárfestum gagnsæjar, sannar og tímanlegar upplýsingar um fjárhagslega stöðu fyrirtækja. Í fjölda ára hefur verið rætt um vandamál við upplýsingagjöf reikningsskila fyrirtækja. Bent hefur verið á að svo mikið af upplýsingum sé í reikningsskilum að ekki sé með góðu móti hægt að koma auga á þær upplýsingar sem máli skipta. Einnig hefur verið gagnrýnt að ekki séu allar upplýsingar sem birtar eru viðeigandi og að nokkuð vanti uppá að upplýsingar séu settar fram með nægjanlega skýrum hætti.
Mikið hefur verið skrifað um þróun reikningsskila og eru flestir hagsmunaaðilar sammála um að vandamál sé til staðar. Í þessari ritgerð verður fjallað um fræðileg skrif og rannsóknir um málefnið. Alþjóðlega reikningsskilaráðið hefur gefið það út að áhersla þess á komandi árum muni vera á að bæta upplýsingagjöf í reikningsskilum. Vinnur ráðið nú að nokkrum stórum verkefnum sem öll hafa þann tilgang að bæta þá upplýsingagjöf sem fyrirtæki setja fram í reikningsskilum sínum. Í einu af verkefnunum er áherslan á skýringahluta reikningsskila og í öðru að hinum eiginlegu fjárhagsyfirlitum, yfirliti yfir heildarafkomu, efnahagsreikningi, yfirliti um sjóðstreymi og yfirliti um breytingar á eigin fé. Verður nánar fjallað um þessi verkefni í ritgerðinni ásamt verkefni bandaríska reikningsskilaráðsins.
Höfundar reikningsskila geta sjálfir leitað ýmissa leiða til að bæta upplýsingagjöf reikningsskila sinna. Dæmi um leiðir er að huga að uppsetningu skýringa og farið verður yfir það hvernig hægt er að raða skýringum innan reikningsskila til að bæta upplýsingagjöf. Einnig verður farið yfir hvernig höfundar reikningsskila geta nýtt sér tækni til þess að leiðbeina lesendum lestur ársreikninga sinna.
Við lestur á íslenskum ársreikningum kom í ljós að lengd ársreikninga íslensku bankanna hefur aukist mikið á milli þeirra ára sem skoðuð voru. Ljóst er að ofgnótt upplýsinga er í reikningsskilum sem vinna þarf bætur á. Þarf það að gerast með sameiginlegu átaki allra þeirra sem koma að reikningsskilum um að bæta upplýsingagjöf svo hefðbundin reikningsskil haldi notagildi sínu í viðskiptaheiminum.
Filename | Size | Visibility | Description | Format | |
---|---|---|---|---|---|
Að sjá ekki skóginn fyrir trjánum.pdf | 982.02 kB | Open | Complete Text | View/Open | |
Yfirlýsing.pdf | 73.81 kB | Locked | Yfirlýsing |