Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/28971
Efni þessarar ritgerðar er rannsókn á upplýsingahegðun meistaranema við Lagadeild Háskóla Íslands. Rannsóknin fór fram á tímabilinu september 2016 til febrúar 2017. Notuð var blönduð aðferðafræði, eigindleg og megindleg. Viðtöl voru tekin við átta nemendur og spurningakönnun var send á alla nemendur í meistaranáminu. Svarhlutfall var 73%. Viðtölin voru kóðuð og út úr því komu fjögur þemu: Val heimilda, ferli heimildaleita, þröskuldar við heimildaleitir og bjargir nemenda. Bók á prenti er oftast nefnd til sögunnar þegar kemur að vali á heimildum. Spurningakönnuninni var meðal annars ætlað að varpa ljósi á það hvort nemendur í meistaranáminu hefðu vitneskju um þau gagnasöfn sem standa þeim til boða og í hvaða mæli þeir væru að nýta sér þau. Könnunin leiddi í ljós að Fons Juris ber höfuð og herðar yfir önnur gagnasöfn þegar kemur að vitneskju um og notkun á gagnasöfnum í áskrift Lagadeildarinnar. Önnur gagnasöfn eru minna þekkt og sum mjög lítið. Konur eru í öllum tilvikum fleiri í hópi þeirra sem hafa vitneskju um að gagnasöfnin standi þeim til boða. Vitneskja um hvaða gagnasöfn standa þátttakendum til boða helst í hendur við hve langt þeir eru komnir í náminu varðandi meirihluta gagnasafnanna. Sama gildir um notkun á þeim; þeir nemendur sem lengst eru komnir í náminu eru meirihluti þeirra sem notað hafa gagnasöfnin. Vísbendingar eru um að kynningar séu ekki að skila nógu miklum árangri í að kynna gagnasöfn og aðrar bjargir sem nemendum standa til boða.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
MIS-lokaritgerð í Upplýsingafræði.pdf | 1,74 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna | |
Skemman.pdf | 28,25 kB | Lokaður | Yfirlýsing |