is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Félagsvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Félagsvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/29046

Titill: 
  • Refsiákvæði um skattalagabrot og fullnusta refsinga
  • Titill er á ensku Penalty provisions regarding tax violations and enforcement of sentences
Námsstig: 
  • Meistara
Útdráttur: 
  • Gagnrýnt hefur verið hversu lítill hluti þyngstu dómsekta innheimtist hér á landi. Samkvæmt könnunum sem gerðar hafa verið á fullnustu dæmdra sekta undanfarin ár eru hæstu fésektirnar nánast allar vegna brota á skattalögum. Í ritgerðinni er leitast við að svara þeirri spurningu hvort núgildandi refsiákvæði skattalaga hafi nægileg varnaðaráhrif með hliðsjón af refsiákvörðun og fullnustu refsinga. Dómaframkvæmd um viðfangsefnið er könnuð til skýringar. Í fyrstu köflum ritgerðarinnar er að finna almenna umfjöllun um skattalagabrot, gerð er grein fyrir þremur refsiheimildum samkvæmt skattalögum sem mest reynir á í framkvæmd og í því samhengi fjallað um álag samkvæmt skattalögum, fyrst og fremst álag skv. 108. gr. tekjuskattslaga. Dregin er sú ályktun að álag á skattstofna geti talist viðurlög við refsiverðu broti í skilningi Mannréttindasáttmála Evrópu, m.a. með hliðsjón af dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu. Þá er umfjöllun um 262. gr. hgl. og auk þess er vikið að 289. gr. dönsku hegningarlaganna. Í seinni köflunum er fjallað um refsingar fyrir skattalagabrot, einkum sektarrefsingar, fullnustu þeirra og hversu virk fullnustuúrræðin eru. Þá er ferill mála vegna brota á skattalögum rakinn og gerð er grein fyrir málsmeðferð. Sérstaklega er fjallað um innheimtu sekta og sakarkostnaðar og í því sambandi horft til innheimtu sekta og sakarkostnaðar á hinum Norðurlöndunum. Að lokum er gerð grein fyrir samfélagsþjónustu sem fullnustuúrræði, með áherslu á fullnustu vararefsingar fésekta með samfélagsþjónustu.
    Árið 1995 voru gerðar breytingar á refsiákvæðum nokkurra skattalaga. Refsingar vegna brota á skattalögum voru þyngdar með lögfestingu refsilágmarks, þ.e. að sekt nemi aldrei lægri fjárhæð en tvöfaldri skattfjárhæð af undandregnum skattstofni. Í þeim tilgangi að auka varnaðaráhrif refsiákvæðanna var að auki lögfest nýtt ákvæði í 262. gr. hgl. sem kveður á um að refsing vegna meiri háttar brota á skattalögum og fleiri lögum geti varðað allt að sex ára fangelsi. Ekki er þó algengt að dómar fyrir meiri háttar skattalagabrot kveði á um óskilorðsbundið fangelsi þótt finna megi dæmi þess. Ákvæði 262. gr. hgl. heimilar að dæmd sé fésekt jafnhliða fangelsi. Samkvæmt 53. gr. hgl. er vararefsing fésekta fangelsi. Samkvæmt lögum nr. 15/2016 um fullnustu refsinga er heimilt að fullnusta vararefsingu fésekta með samfélagsþjónustu. Sem fyrr segir eru hæstu dómsektirnar nánast án undantekninga vegna brota á skattalögum. Stærstur hluti þeirra er afplánaður með samfélagsþjónustu í stað vararefsingar fésekta þar sem afar illa gengur að innheimta sektirnar og sjaldan kemur til þess að vararefsing sé fullnustuð með fangelsi. Að því virtu hvernig refsiframkvæmdin er í dag er komist að þeirri niðurstöðu að refsiákvæði um skattalagabrot hafi ekki tilætluð varnaðaráhrif.

Samþykkt: 
  • 14.9.2017
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/29046


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
yfirlýsing.pdf310.74 kBLokaðurYfirlýsingPDF
MEISTARARITGERÐ .pdf1.18 MBLokaður til...01.01.2050HeildartextiPDF