Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/29065
Íslenska lífeyriskerfið byggir á þrem stoðum líkt og samræmist algengri sýn sérfræðinga á þessu sviði um tilhögun slíkra kerfa. Grunnstoð kerfisins felst í almannatryggingakerfi á vegum hins opinbera sem tryggir afkomu þeirra sem ekki hafa nægilegar tekjur til framfærslu þegar komið er á lífeyristökualdur. Til að ná fram markmiðum um mestan stuðning við þennan hóp miðast greiðsluupphæðir við tekjur hvers lífeyrisþega og skerðast þær samkvæmt fyrirframákveðnum reglum um greiðsluupphæðir, frítekjumörk og skerðingarhlutföll þeirra bótaflokka sem tilheyra kerfinu.
Um síðustu áramót tók umrætt bótakerfi ellilífeyrisþega miklum breytingum og má segja að nýtt greiðslukerfi hafi verið tekið í notkun. Efni þessarar ritgerðar felst í úttekt á þeim breytingum sem áttu sér stað og samanburði á greiðslukerfinu sem notast var við áður og því nýja sem tekið var í notkun í upphafi árs, auk mats á því hvernig til tókst að ná fram þeim markmiðum sem sett voru fram í aðdraganda breytinganna.
Virkni kerfanna er útskýrð og notast er við tölulega og myndræna framsetningu til að bera saman áhrif breytinganna á greiðslur til ellilífeyrisþega og skera þannig úr um hvort breytingarnar hafi haft áhrif á upphæðir greiðslna til lífeyrisþega, auk þess sem skoðuð eru jaðaráhrif skatta og skerðinga í tilfelli beggja kerfa.
Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að ágætlega tókst til að ná fram markmiðum um einföldun kerfisins, auknu frelsi og styrkari stoðum þess gagnvart þeim tekjulægstu. Nýja greiðslukerfið er mun einfaldara og býður upp á meira svigrúm varðandi töku lífeyris en kerfið sem notast var við áður. Skerðingar í upphafi tekjuöflunar eru mun minni með afnámi 100% skerðinga á lægstu tekjur líkt og samkvæmt gamla kerfinu og er því afkoma þeirra verst settu betur tryggð með nýja greiðslukerfinu.
Hins vegar sýna niðurstöður líka að ákveðnir hópar koma verr út úr breytingunum og verða fyrir tekjumissi vegna þeirra. Skerðingum hefur þannig að einhverju leyti verið hliðrað og þær gerðar harðari gagnvart hópum með hærri tekjur. Niðurstöðurnar benda einnig til þess að nýja kerfið sé að sumu leyti meira letjandi hvað varðar atvinnuþátttöku ellilífeyrisþega heldur en gamla greiðslukerfið, þvert á markmið um að hvetja viðkomandi hóp til aukinnar atvinnuþátttöku.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Yfirlýsing.pdf | 475,38 kB | Lokaður | Yfirlýsing | ||
Ritgerð%20Almannatryggingar%20Berti%20lokalokalokalokaskil.pdf | 2,49 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |