is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Félagsvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Félagsvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/29156

Titill: 
  • Persónuverndarreglugerðin nr. 2016/679: Skyldur og ábyrgð þeirra sem vinna með persónuupplýsingar.
Námsstig: 
  • Meistara
Útdráttur: 
  • Ný reglugerð nr. 2016/679 um persónuvernd tekur gildi í aðildarríkjum ESB hinn 25. maí 2018. Um leið verður felld niður tilskipun 95/46/EB sem lög nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga eru byggð á. Gert er ráð fyrir að reglugerðin verði tekin upp í EES-samninginn og í framhaldi innleidd með nýrri löggjöf hér á landi. Í ritgerð þessari er leitað svara við því hvaða skyldur hvíla á þeim sem vinna með persónuupplýsingar samkvæmt ákvæðum reglugerðarinnar um rétt skráðra einstaklinga og ákvæðum sem gera kröfur til tæknilegra og skipulagslegra ráðstafana við framkvæmd vinnslunnar. Einnig er skoðað hvaða meginbreytingar megi greina frá gildandi persónuverndarlögum. Til að svara þessum spurningum er ákvæðum í reglugerðinni lýst og þau túlkuð meðal annars með hliðsjón af skýringum í formálsorðum reglugerðarinnar, skrifum fræðimanna, leiðbeiningum starfshóps um persónuvernd og dómaframkvæmd. Einnig er litið til samsvarandi ákvæða í lögum nr. 77/2000 og álita og úrskurða Persónuverndar.
    Helstu niðurstöður eru að persónuverndarreglugerðin byggir á meginreglum og grundvallarhugtökum sem finna má í lögum nr. 77/2000 en felur jafnframt í sér mörg nýmæli og almennt ítarlegri og nákvæmari fyrirmæli um skyldur þeirra sem vinna með persónuupplýsingar. Landfræðilegt gildissvið er útvíkkað og mun reglugerðin einnig gilda um aðila utan Evrópska efnahagssvæðisins sem vinna með persónuupplýsingar um einstaklinga á Evrópska efnahagssvæðinu í tilteknum tilgangi. Ábyrgðaraðili ber meginábyrgð á því að vinnslan sé í samræmi við reglugerðina en jafnframt er gerð sú grundvallarbreyting frá lögum nr. 77/2000 að vinnsluaðili ber sjálfstæða ábyrgð á vinnslu í þeim tilvikum þar sem hann ákveður tilgang og aðferðir við vinnsluna. Með reglugerðinni er ábyrgðarskylda aukin, þ.e. að þeir sem vinna með persónuupplýsingar geti sýnt fram á með gögnum að öll vinnsla sé í samræmi við reglugerðina. Skyldur ábyrgðaraðila samkvæmt rétti hins skráða fela í sér nokkur nýmæli, svo sem skyldu til að afhenda eða flytja tiltekin gögn til annars ábyrgðaraðila að beiðni hins skráða. Gerðar eru strangar kröfur í samskiptum við hinn skráða og að hann sé upplýstur um vinnsluna. Í ákvæðum sem fela í sér skyldur til tæknilegra og skipulagslegra ráðstafana eru mörg nýmæli, svo sem krafa um að vinnslan feli í sér innbyggða og sjálfgefna persónuvernd, skylda til að framkvæma mat á áhrifum vinnslu á persónuvernd og skylda til að tilnefna persónuverndarfulltrúa. Ákvæði um bótaábyrgð ábyrgðar- og vinnsluaðila eru útvíkkuð og taka til óefnislegs tjóns en ekki bara fjárhagslegs tjóns eins og í gildandi persónuverndarlögum. Þá er gert ráð fyrir að eftirlitsyfirvöldum verði heimilt að leggja á háar stjórnsýslusektir við brotum á reglugerðinni til viðbótar við aðrar valdheimildir þeirra.

Samþykkt: 
  • 13.10.2017
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/29156


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Yfirlýsing um meðferð lokaverkefna sem varðveitt eru á LÍH.pdf38.39 kBLokaðurYfirlýsingPDF
Meistararitgerð SDG.pdf1.07 MBLokaður til...01.03.2028HeildartextiPDF