Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/29187
Inngangur
Meginmarkmið þessa verkefnis var að skoða uppbyggingu yngri flokka starfs sem fer fram hjá knattspyrnufélögunum hér á Íslandi og bera það saman við uppbyggingu yngri flokka starfs hjá sambærilegum félögum í Noregi og Svíþjóð. Markmiðið var að sjá hvort það væri áherslumunur í einhverjum þáttum starfsins á milli landanna.
Aðferðir
Þeir þættir sem lögð var áhersla á eru; hverjir sjá um þjálfunina, menntun þjálfara, fjöldi iðkenda, fjöldi iðkenda á hvern þjálfara, stærð og fjöldi hópa, aðstæður og skipting iðkenda í hópa. Gögnum var aflað með eigindlegum viðtölum og stöðluðum spurningalista. Tekin voru viðtöl við þrjá einstaklinga sem allir voru starfandi sem yfirþjálfarar hjá sínum félagsliðum. Viðtölin byggðust upp á hálfopnum spurningum þar sem viðmælendur voru beðnir um að svara spurningum sem snúa að yngri flokka starfi félagsins ásamt því að leita eftir reynslu, upplifun og skoðunum viðmælenda.
Niðurstöður
Þjálfun barna 12 ára og yngri er eingöngu í höndum foreldra í Noregi og Svíþjóð fyrir utan akademíustarfsemi félaganna á meðan öll þjálfun er í höndum menntaðra og launaðra þjálfara á Íslandi. Hátt hlutfall íslenskra yngri flokka þjálfara eru kennaramenntaðir. Íslensk börn geta byrjað 3 ára gömul að æfa en í Noregi eru yngstu iðkendur 4 ára og 6 ára í Svíþjóð. Börn á leikskólaaldri æfa oftar en jafnaldrar þeirra í Noregi og Svíþjóð og keppa einnig reglulega yfir árið á meðan það tíðkast ekki að þessi aldurshópur keppi í Noregi og Svíþjóð. Á Íslandi mætir stór hópur, allt að 80, iðkenda saman á æfingu og er þar skipt í minni hópa og æfingin fer fram í stöðvarþjálfun eða hringekjufyrirkomulagi á meðan flestar æfingar í Noregi og Svíþjóð eru þannig að hópurinn er lítill, 12 til 20 iðkendur, og keppir sem eitt lið sem er oft fulltrúi síns skólahverfis. Æfingar á Íslandi eru farnar að vera í framhaldi af skóladeginum á meðan allar æfingar í Noregi og Svíþjóð eru eftir að hefðbundnum vinnudegi foreldra lýkur. Æfingagjöld á Íslandi eru um fjórum sinnum hærri en í Noregi og Svíþjóð en á móti kemur að iðkendur geta sótt um iðkendastyrk hjá flestum sveitarfélögum á Íslandi en það þekkist ekki í Noregi og Svíþjóð. Getuskipting byrjar að einhverju leyti á Íslandi strax við 6 ára aldur, í Noregi byrjar getuskipting formlega við 14 ára aldur og í Svíþjóð vill þarlent Knattspyrnusamband byrja getuskiptinu við 15 ára aldur en sænska félagið í rannsókninni byrjar að velja þá bestu saman strax 7 ára hjá strákum og 12 ára hjá stúlkum. Hjá öllum félögum er aðallega stuðst við huglægt mat þjálfara við getuskiptingu.
Ályktanir
Uppbygging knattspyrnuæfinga á Íslandi annars vegar og í Noregi og Svíþjóð hinsvegar er mjög ólíkt. Knattspyrnuþjálfun á Íslandi er þykir góð hvað varðar menntun og gæði þjálfara og samstarf við grunnskóla á meðan öll þjálfun í Noregi og Svíþjóð er í höndum foreldra í sjálfboðavinnu. Íslensk börn hafa líka tækifæri á að byrja að æfa fyrr ásamt því að kynnast því að keppa fyrr en jafnaldrar þeirra í Noregi og Svíþjóð. Akademíustarf þar sem valdir eru þeir einstaklingar úr stórum hóp iðkenda og þeir látnir æfa og keppa saman tíðkast bæði í Noregi og Svíþjóð en slíkar akademíur eru ekki starfræktar á Íslandi. Á Íslandi fá allir sömu þjónustu og til að einstaklingar fái verkefni við hæfi er getuskipt í hópa strax frá 6 ára aldri.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Lokaskjal-HilmarRafnKristinsson.pdf | 1,18 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna | |
Yfirlýsing_Skemma_HRK.JPG | 2 MB | Lokaður | Yfirlýsing | JPG |