Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/29188
Meginmarkmið með ritgerðinni er að útskýra hvað gerist í lestrarferlinu við lestrarnám og hvort viðbótarþjálfun á heimilum barna sé nauðsynleg til þess að framfarir geti átt sér stað. Framkvæmd var lítil viðtalskönnun til að kanna viðhorf og reynslu foreldra til heimanáms og þá sérstaklega heimalesturs. Höfundur ákvað að leita til foreldra barna í fjórða bekk í meðalstórum skóla úti á landi. Skólastjóri skólans sá um að senda tölvupóst til foreldra og óska eftir þátttöku þeirra í rannsókninni. Fyrstu sex viðmælendur sem höfðu samband voru valdir í rannsóknina og boðaðir í viðtal. Rannsóknin var með eigindlegu sniði og fóru viðtöl fram á tímabilinu júní – júlí 2015.
Niðurstöður rannsóknar sýndu að öllum foreldrum þótti heimalestur mikilvægur og nauðsynlegur þáttur í lestrarnámi barna sinna þó oft geti verið erfitt að finna tíma fyrir þessar stundir. Börnin séu einnig misvel upplögð til að lesa, þreytt þegar þau koma heim að loknum skóladegi og lesefnið misskemmtilegt. Reynsla foreldra af leiðbeiningum frá skólanum um heimalesturinn er mismunandi. Allt frá því að fá engar leiðbeiningar til mikils stuðnings og fróðleiks. Mörg hugtök tengd lestrarnámi eru notuð til að fræða foreldra og útskýra lestrarferlið og lestrarþróun nemanda í foreldraviðtölum og á teymisfundum. Foreldrar voru stundum ekki alveg vissir um hvort þessi hugtök höfðu einhvern tíma verið útskýrð og stundum skilja þeir ekki hvað átt er við.
Samstarf heimila og skóla er mikilvægt svo sem bestur árangur náist í námi barna. Þess er vænst að þessi litla rannsókn nýtist til að vekja umræðu um mikilvægi heimalesturs og upplýsingagjafar til foreldra. Í rannsókninni komu fram ólík viðhorf og upplifanir foreldra af heimalestri barna sinna sem aftur vísar til mikilvægis einstaklingasmiðaðrar nálgunar þar sem tekið er mið af þörfum hvers nemanda. Samkvæmt aðalnámskrá grunnskóla er skólum ætlað að halda utan um það viðfnagsefni, en af viðtölunum mátti ráða að skólinn þarf að vera virkari við upplýsingagjöf og endurgjöf til nemenda og foreldra um framvindu og gengi barna í lestrarnámi. Í kjölfar vinnu við lokaverkefni þetta hannaði höfundur upplýsingabækling fyrir foreldra sem meðal annars inniheldur helsu upplýsingar sem viðmælendum í rannsókninni fannst að gætu komið að gagni.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Hrafnhildur Valgarðsdóttir.pdf | 1.81 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna | |
hrafnhildur_yfir.pdf | 215.65 kB | Lokaður | Yfirlýsing |