Please use this identifier to cite or link to this item: https://hdl.handle.net/1946/29207
Árið 2015 hófst innleiðing spjaldtölva í grunnskóla Kópavogs og er þetta verkefni í heild nokkurs konar úttekt og lýsing á innleiðingunni og því hvaða áhrif hún hefur haft á kennsluhætti. Markmiðið með innleiðingunni var að breyta kennsluháttum í anda náms á 21. öldinni og færa námið nær daglegu lífi nemenda. Í verkefninu er fjallað um innleiðinguna og áhrif hennar eins og þau birtast um þessar mundir og leitast við að draga lærdóma af því starfi sem þegar hefur farið fram.
Rannsóknin byggir á eigindlegri nálgun og er sambland af tilviksrannsókn og starfendarannsókn þar sem fundargerðir eru skoðaðar, litið til viðtalsgagna og rýnt í kannanir meðal nemenda og kennara. Einnig er horft til reynslu höfundar og félaga hans í teymi kennsluráðgjafa og verkefnastjóra um innleiðinguna. Markmiðið er draga fram helstu lærdóma sem draga má af þessari innleiðingu og setja þá fram í greinargerð og á vef sem líta má á sem handbók fyrir þá sem vilja feta sömu slóð og Kópavogur.
Innleiðingin eins og hún stendur núna þykir hafa gengið vel á heildina litið. Ánægja nemenda og þátttaka í verkefninu hefur verið almenn. Þeir eiga fleiri kosti en áður við samskipti, leit að gögnum, úrvinnslu og miðlun. Þeir eru ekki jafn bundnir við kennslustofur sínar og áður og þurfa ekki að bera með sér þungar bækur til nota í heimanámi. Kennarar eru margir ánægðir með spjaldtölvurnar og nýta þær sumir mikið með nemendum sínum. Margir mættu beita þeim oftar og markvissar og svo virðist sem þeir sem síst eru sáttir við að þurfa að taka upp nýja tækni beiti spjaldtölvunum lítið. Hvatning og stuðningur skólastjóra gegnir mikilvægu hlutverki þegar breyta á kennsluháttum hvað varðar upplýsingatækni. Styðja þarf kennara með margvíslegum hætti eins og með fræðslu í formi námskeiða eða einstaklingsráðgjöf og veita þarf kennurum skipulagt svigrúm til að tileinka sér tækni og nýja kennsluhætti. Foreldrar hafa tekið innleiðingunni vel en mættu vera betur upplýstir um notkun barnanna og unglingana á spjaldtölvunum. Kennarar mættu vera reiðubúnari að láta eitthvað víkja fyrir nýjum aðferðum og segja meira frá notkun sinni og nemenda sinna á nýjum búnaði.
Helstu niðurstöður eru að kennsluhættir hafa breyst. Nemendur hafa meira val um skil verkefna, námið þykir áhugaverðara og skemmtilegra og spjaldtölvan sparar tíma. Spjaldtölvurnar styðja vel við einstaklingsmiðað nám og stuðla einnig að samvinnu nemenda sem hefur jákvæð áhrif á námsárangur. Hvorki kennarar né nemendur vilja hverfa aftur til þess tíma þar sem engin var spjaldtölvan.
Filename | Size | Visibility | Description | Format | |
---|---|---|---|---|---|
Innleiding_a_spjaldtolvum_Sigurdur_Haukur_Gislason.pdf | 1,52 MB | Open | Report | View/Open | |
Innleiding_a_spjaldtolvum_Sigurdur_Haukur_Gislason_yfirlysing.pdf | 177,69 kB | Locked | Yfirlýsing |