Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/2922
Tilgangur þessarar rannsóknar var að kanna tengsl geðheilsu við áfengis- og vímuefnameðferð. Rannsóknir hafa sýnt að geðrænir kvillar eru algengir hjá þeim sem koma í áfengis- og vímuefnameðferð og meðferð er oft vandasamari hjá þessum hópi sem glímir við tvenns konar vanda. Geðheilsa sjúklinga sem lögðust inn á Sjúkrahúsið Vog árið 2008 var metin með stöðluðu klínísku viðtali sem er hluti af inntökuferli þar. Viðtalið kallast Addiction Severity Index (ASI) og metur almenn geðræn einkenni um ævina og við innlögn þar sem hærra skor gefur til kynna fleiri geðræn einkenni eða vandamál. Tengsl geðheilsu almennt við þrjár meðferðarbreytur voru könnuð, (1) lengd innlagnar, (2) meðferðarlok (hvernig útskrift bar að), og (3) fjöldi fyrri meðferða á Sjúkrahúsinu Vogi. Tilgáta eitt er að áfengis- og vímuefnasjúklingar sem hafa fleiri geðræn einkenni við innlögn í meðferð dvelji að meðaltali í styttri tíma í meðferð heldur en þeir sem eru með færri geðræn einkenni. Tilgáta tvö er að áfengis- og vímuefnasjúklingar með fleiri geðræn einkenni við innlögn í meðferð hafi í heildina komið oftar í áfengis- og vímuefnameðferð heldur en þeir áfengis- og vímuefnasjúklingar sem eru með færri geðræn einkenni. Frumbreytan er geðræn einkenni á ASI og fylgibreyturnar eru þrjár: legudagar, meðferðarlok og fjöldi innlagna í meðferð. Einnig var tekið tillit til kyns. Þátttakendur rannsóknarinnar eru sjúklingar sem komu til meðferðar á Sjúkrahúsið Vog árið 2008 og undirgengust ASI viðtalið. Fjöldi þeirra var 1354, þar af voru 387 konur og 967 karlar. Aldur þátttakenda var á bilinu 17-82 ára og var meðalaldur þeirra 38,74 ár. Helstu niðurstöður rannsóknarinnar voru þær að konur eru verr staddar með tilliti til geðrænna einkenna en karlar, þeir sem eru með alvarlegri geðræn einkenni eru marktækt lengur í innlögn og afeitrun en þeir sem eru betur staddir, en því var spáð að þeir yrðu skemur í meðferð vegna ótímabærra útskrifta. Í ljós kom að ótímabær lok meðferðar tengdust geðheilsu, og voru þær hlutfallslega flestar hjá þeim hópi sem var með flest geðræn einkenni (hópur 1-3: 7,5%; 10.1%; 16%) en geðheilsa tengdist ekki fjölda innlagna, og geðræn einkenni höfðu engin áhrif á meðferðarsögu, eins og spáð hafði verið. Þessar niðurstöður eru ræddar en þær benda til þess að þeir sem glíma við geðrænan vanda þurfi lengri tíma í afeitrun og að þeir leiti ekki oftar í áfengis- og vímuefnameðferð en þeir sem eru við betri geðheilsu.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
pd_fixed.pdf | 154.02 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |