Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/2925
Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna reynslu einstaklinga með parkinsonsveiki af jafningjastuðningi. Fyrri rannsóknir sýna jákvæð áhrif jafningjastuðnings á líðan fólks með langvinna sjúkdóma. Fáar rannsóknir eru til um jafningjastuðning einstaklinga með parkinsonsveiki og skortur á þekkingu um efnið hér á landi.
Notuð var eigindleg aðferðafræði og tekin viðtöl við sex einstaklinga með parkinsonsveiki sem tekið höfðu þátt í jafningjastuðningi á vegum Parkinsonssamtakanna árið 2008. Gögnum var safnað með hálfstöðluðum viðtölum sem tekin voru upp á segulband, skráð orðrétt í tölvu, greind og fundin þemu. Niðurstöður benda til að jafningjastuðningur hafi jákvæð áhrif á líðan einstaklinga með parkinsonsveiki. Greind voru þrjú þemu sem varpa ljósi á reynslu þátttakenda; 1) Að vera með ,,parkann”, 2) Við erum öll jöfn og 3) Að byggjast upp. Samkvæmt niðurstöðunum gefur jafningjastðningurinn von, eykur sjálfsöryggi og öryggistilfinningu auk þess sem þátttakendur nutu ráðlegginga og hvatningar jafningja. Niðurstöðurnar samræmast niðurstöðum fyrri rannsókna um að þátttaka í jafningjastuðningi hafi jákvæð áhrif á lífsgæði einstaklinga með langvinna sjúkdóma.
Rannsóknin gefur innsýn í gildi jafningjastuðnings og er framlag til þekkingarþróunar á þessu sviði. Rannsóknin hefur hagnýtt gildi fyrir einstaklinga með parkinsonsveiki og hjúkrun, því með aukinni þekkingu á sviðinu geta hjúkrunarfræðingar komið betur til móts við þarfir einstaklinga með parkinsonsveiki.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
prentunar_fixed.pdf | 427,74 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |