Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/29263
Undanfarin ár hefur evrópska vörumerkjaskráningarstofan (EUIPO)stefnt að frekari samræmingu í vinnuferlum landsbundinna evrópskra hugverkastofnana. Samanburður aðildarríkja Evrópusambandsins á afgreiðslu og meðhöndlun vörumerkjaskráninga leiddi í ljós töluvert misræmi. Markmið EUIPO er að skapa skilvirkt kerfi evrópskrar vörumerkjaskráningar (European Union Trade Mark, hér eftir nefnt EUTM) og er því æskilegt að hinar landsbundnu hugverkastofur séu sem mest samstilltar og samstíga. Til að ná því fram hefur EUIPO sett á laggirnar ýmis samræmingarverkefni. Eitt slíkt samræmingarverkefni tekur á þeim viðmiðum sem varða mat á skráningarhæfi myndmerkja sem innihalda almennan eða lýsandi orðhluta. Meginregla 13. gr. vörumerkjalaga nr. 45/1997 er að slík orðmerki, ein og sér, eru ekki skráningarhæf þar sem þau skortir sérkenni og aðgreiningarhæfi og er þeim því ekki veitt sú vernd sem vml. veita. Frá þessari meginreglu er þó hægt að víkja ef orðin, sem á reynir eru hluti myndmerkis og stílfærsla er nægjanlega mikil til að gæða merkið sérkenni og aðgreiningarhæfi.
Í þessari ritgerð verður farið yfir þessi nýju og samræmdu viðmið EUIPO og kannað hvað í þeim felst, þ.e. hvernig mörkin milli nægjanlegrar og ónægjanlegrar stílfærslu eru metin einkum þegar orð- eða myndhlutinn þykir ekki skráningarhæfur einn og sér. Í því skyni verður aðallega stuðst við dæmi og frá EUIPO og íslensku Einkaleyfastofunni. Einnig verður vitnað í þá dóma Evrópudómstólsins sem hafa haft mest áhrif á mótun hinna nýju viðmiða. Í kjölfarið fer fram athugun á þeim breytingum sem viðmiðin hafa í för með sér fyrir framkvæmd vörumerkjaskráninga hér á landi. Að lokum verður vikið að mögulegum álitaefnum við endurnýjun vörumerkjaskráninga úr tíð eldri viðmiða. Ritaðar heimildir á íslensku eru af skornum skammti og er því aðallega stuðst við erlendar heimildir.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
BA-ritgerð_Egill_G_Egilsson_final.pdf | 435,96 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna | |
Yfirlysing_BA_Egill_Egilsson.pdf | 325,16 kB | Lokaður | Yfirlýsing |