is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Félagsvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Félagsvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/29314

Titill: 
 • Fjárfestingar verðbréfa- og fjárfestingarsjóða fyrir og eftir efnahagshrun. Hafði efnahagshrunið áhrif á eignasamsetningu skuldabréfasjóða?
Námsstig: 
 • Meistara
Útdráttur: 
 • Efnahagshrunið haustið 2008 hafði áhrif á velflesta á Íslandi, einstaklinga jafnt sem fyrirtæki. Fjármálastofnanir urðu gjaldþrota, sem og önnur fyrirtæki og einstaklingar. Efnahagshrunið hafði meðal annars áhrif á rekstur sjóða á Íslandi en 25 verðbréfa- og fjárfestingarsjóðum var lokað frá miðju ári 2008 fram á mitt ár 2009.
  Í ritgerðinni er rannsakað hvort og þá hvaða áhrif efnahagshrunið hafði á eignasamsetningu skuldabréfasjóða á Íslandi. Í því skyni var framkvæmd rannsókn á gögnum um eignasamsetningu sjóðanna, um framboð á skuldabréfum og víxlum og um veltu í viðskiptum með skuldabréf og víxla.
  Til að kanna framboð á skuldabréfum og víxlum fyrir árin 2005 til 2016 voru öll útgefin ISIN-númer á tímabilinu skoðuð og leitað að útgáfulýsingum vegna þeirra bréfa. Gögnin sýna að framboð af skuldabréfum og víxlum útgefnum af hinu opinbera eykst mikið eftir efnahagshrun og er mun meira en framboð í öðrum flokkum, fer úr 232 ma. kr. árið 2008 í 614 ma. kr. árið 2009. Gögnin sýna einnig að framboð af skuldabréfum og víxlum útgefnum af fjármálafyrirtækjum og öðrum fyrirtækjum minnkar verulega við hrunið. Útgáfa skuldabréfa og víxla fjármálafyrirtækja fer úr 150 ma. kr. árið 2008 í 1 ma. kr. árið 2009, og útgáfa skuldabréfa og víxla annarra fyrirtækja fer úr 34 ma. kr. árið 2008 í 28 ma. kr. árið 2009 og niður í 1 ma. kr. árið 2011.
  Einnig var notast við gögn frá Nasdaq OMX Nordic Iceland fyrir sama tímabil sem geyma upplýsingar um nýjar útgáfur og breytingar á eldri útgáfum, til að kanna framboðið. Gögnin staðfesta aukningu í útgáfu hins opinbera og samdrátt í útgáfu fjármálafyrirtækja og annarra fyrirtækja.
  Veltutölur frá kauphöll sýna einnig að velta með skuldabréf og víxla útgefna af atvinnufyrirtækjum fer úr 28 ma. kr. árið 2007 í 3 ma. kr. 2010, og velta með skuldabréf og víxla útgefna af fjármálafyrirtækjum fer úr 98 ma. kr. árið 2008 í 2 ma. kr. árið 2009.
  Þessar niðurstöður gefa til kynna að eignasamsetning skuldabréfasjóða ætti að hafa breyst vegna breytinga á framboði skuldabréfa og víxla.
  Til að kanna hvort eignasamsetning skuldabréfasjóðanna hafi breyst við efnahagshrunið voru skoðuð gögn frá Seðlabanka Íslands fyrir árin 2005 til 2016, brotin upp í þrjú tímabil. Í fyrsta lagi árin fyrir efnahagshrun, þ.e. árið 2005 fram á mitt ár 2008, í öðru lagi tímabilið frá miðju ári 2008 fram á mitt ár 2009 og í þriðja lagi tímabilið frá miðju ári 2009 til loka árs 2016. Gögnin sýna að eignasamsetning skuldabréfasjóða hefur breyst í kjölfar efnahagshrunsins. Ef eignasamsetning í lok árs 2007 er borin saman við eignasamsetningu í lok árs 2008 má sjá verulegar breytingar. Hlutfall íbúða- og húsnæðisbréfa fer úr 8% í 54%, hlutfall skuldabréfa og víxla útgefnum af atvinnufyrirtækjum fer úr 43% í 19%, hlutfall skuldabréfa og víxla útgefnum af fjármálafyrirtækjum fer úr 16% í 6%, hlutfall skuldabréfa og víxla útgefnum af hinu opinbera (að íbúðar- og húsnæðisbréfum undanskildum) fer úr 7% í 12% og innlán fara úr 21% í 7%.
  Það vegur væntanlega þyngst í breytingu á eignasamsetningu að verulega dró úr framboði verðbréfa eftir hrun og fjárfestar höfðu í reynd um færri kosti að velja á skuldabréfamarkaði, sem leiðir til þess að samsetning í eignasöfnun breytist þá þegar. Einnig má ætla að áhættufælni hafi einkennt fjárfesta nokkuð fyrst eftir hrun og fjárfestar hafi fremur viljað leita í fjárfestingar sem þeir töldu áhættuminni en á árunum fyrir hrun. Þannig hafi ekki eingöngu framboðsskortur verið þess valdandi að hlutfall fjárfestinga í skuldabréfum og víxlum útgefnum af hinu opinbera jókst svo mikið sem raun bar vitni heldur kann að hafa spilað þar inn í að fjárfestar hafi litið á þann kost sem hvað áhættuminnstan af þeim verðbréfum sem í boði voru.

Samþykkt: 
 • 8.1.2018
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/29314


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Meistararitgerð í fjármálum_Klara Hrönn Sigurðardóttir.pdf1.4 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna
Yfirlýsing.pdf316.76 kBLokaðurYfirlýsingPDF