Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/29355
Markmið þessarar ritgerðar er að skoða hvort að notkun Donalds Trumps á samfélagsmiðlum hafi haft áhrif á niðurstöður forsetakosninganna sem fram fóru í Bandaríkjunum árið 2016. Í ritgerðinni eru þau völd sem fjölmiðlar hafa innan lýðræðislegra samfélaga skoðuð sem og tengsl þeirra við stjórnvöld. Farið er stuttlega yfir sögu og þróun fjölmiðla og gerð grein fyrir umfangi og áhrifum samfélagsmiðla. Með tilkomu Internetsins hefur útbreiðsla upplýsinga orðið meiri og verður það skoðað út frá félagslegri hegðun og félagslegri keðjuverkun (social cascade) og hugtakið „falsfréttir“ (fake news) tekið sérstaklega fyrir.
Niðurstaða ritgerðarinnar er sú að aukin notkun samfélagsmiðla geti haft töluverð áhrif á niðurstöður kosninga í lýðræðissamfélögum. Til þess að komast að þeirri niðurstöðu er farið í gegnum það hvernig Donald Trump og hans teymi notuðu samfélagsmiðla, og þá sérstaklega Facebook, í aðdraganda forsetakosninga í Bandaríkjunum árið 2016. Ein megin forsenda fyrir því að ríki teljist lýðræðisleg er að upplýsingar séu aðgengilegar almenningi og eru kosningar einnig ein af meginstoðum lýðræðisríkja. Í aðdraganda kosninganna árið 2016 í Bandaríkjunum notuðu Trump og hans teymi samfélagsmiðla til þess að fela og flytja rangar upplýsingar til almennings og einnig til þess að reyna að fá ákveðna hópa fólks til þess að sniðganga kosningarnar. Á endanum vann Trump einn óvæntasta kosningasigur í sögu Bandaríkjanna og má það rekja til notkunar hans, og starfsliðs hans, á samfélagsmiðlum á meðan á kosningaherferð stóð.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Samfélagsmiðlað lýðræði.pdf | 868,17 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna | |
Yfirlýsingin.pdf | 103,82 kB | Lokaður | Yfirlýsing |